Austfirskur fréttaannáll 2013 - Ágúst
Article Index
Page 9 of 13

Íbúi á Seyðisfirði réðist inn á heimili lögreglumanns og hótaði heimilisfólki þar lífláti. Á Egilsstöðum var leitað að brennuvargi sem kveikt hafði í þremur bílum.
Verktakar við gerð Norðfjarðarganga fóru að koma sér fyrir á Eskifirði og byrjað var að gera vegslóða að væntanlegum göngum Norðfjarðarmegin.
Þórunn Anna María Sigurðardóttir, frá Skipalæk í Fellum, lét ekki aldurinn á sig fá heldur klifraði á hæsta tind Dyrfjalla, ríflega áttræð að aldri.
Viðgerðir hófust á mygluhúsum sem ÍAV reisti á Egilsstöðum og Reyðarfirði en samkomulag um skiptingu ábyrgðarinnar milli hönnuða, verktaka, tryggingarfélaga og þeirra sem lögðu til efnið náðist um vorið. Illa gekk að fá austfirska iðnaðarmenn í verkið.
Aðalmeðferð fór fram í morðmálinu fyrir héraðsdómi Austurlands. Friðrik Brynjar Friðriksson hélt fram sakleysi sínu en sérfræðingar lögreglu hröktu flest sem fram kom í hans framburði. Fresta varð aðalmeðferðinni eftir tungumálaörðugleika við skýrslugjöf þýsks meinafræðings í gegnum síma.
Frá viðgerð í Votahvammi. Mynd: GG