Austfirskur fréttaannáll 2013 - Janúar
Article Index
Page 2 of 13

Lesendur Austurfréttar kusu Árna Þorsteinsson Austfirðing ársins 2012. Frásögn hans af því hvernig hann komst lífs af úr snjóflóðunum sem féllu á Neskaupstað árið 1974 hreyfðu við mörgum.
Gróðrarstöðin Barri var úrskurðuð gjaldþrota eftir að hafa farið í greiðslustöðvun í árslok 2012. Fjárhagsleg endurskipulagning bar þar ekki árangur. Nýtt félag var stofnað á grunni þess gamla og hélt áfram rekstri.
Nær öllum umsóknum var hafnað í Vaxtarsamning Austurlands. Margir umsækjendur voru sárir en úthlutunarnefndin sagði að til stæði að fylgja betur eftir umsóknarkröfum.
Breyting varð á úthlutun hreindýraveiðileyfa. Fleiri leyfi voru gefin út sunnar í fjórðungnum en þangað virðast dýrin hafa fært sig.
Umhverfisstofnun gerði athugasemdir við þrjú frávik á starfsleyfi Alcoa Fjarðáls í kjölfar flúormengunar sumarið áður. Fyrirtækið lofaði úrbótum.
Aftakaveður gerði í lok mánaðarins og lokaði flestum fjallvegum í nokkra daga. Þorrablótsgestir urðu veðurtepptir á Seyðisfirði, brauð kláraðist úr hillum verslana í Neskaupstað, talning tafðist í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Norðausturkjördæmi og bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs varð veðurtepptur á Vopnafirði.
Tómar brauðhillur í Neskaupstað. Mynd: Þórhildur Eir Sigurgeirsdóttir