Austfirskur fréttaannáll 2013 - Nóvember
Article Index
Page 12 of 13

Tveir sjómenn á leið heim til Hafnar úr róðri frá Breiðdalsvík drýgðu hetjudáð þegar þeir vöktu og björguðu sjö manna fjölskyldu úr brennandi húsi í Berufirði.
Austurbrú stóð fyrir stórri ráðstefnu um atvinnumál í fjórðungnum. Þar var meðal annars rædd hugmynd um hálendisveg norðan vatnajökuls, fiskeldi og tækifæri á Norðurslóðum.
Það féll þó í skuggann af ósk forsvarsmanna Smyril-Line um að ræða við Fjarðabyggð um möguleikann á að hafnir þar yrðu framvegis viðkomustaður ferjunnar Norrænu, að minnsta kosti yfir vetrarmánuðina.
Bátaverksmiðjan Rán á Djúpavogi afhenti fyrsta bátinn til kaupanda. Haldið var íbúaþing um framtíð byggðar á Breiðdalsvík en gleðin snérist fljótt upp í vonbrigði þegar ljóst var að enginn auka byggðakvóti kæmi í byggðarlagði.
Mikil gleði var í Fjarðabyggð þegar byrjað var að sprengja fyrir nýjum Norðfjarðargöngum frá Eskifirði. Gert er ráð fyrir að byrjað verði að sprengja Norðfjarðarmegin í janúar. Göngin eiga að vera tilbúin árið 2017.
Á Djúpavogi hefur skólabörnum fjölgað svo að grunnskólinn er sprunginn. Á Dalatanga mældist 20 stiga hiti þann 20. nóvember.
Rostungar voru meðal þeirra ferðalanga sem heimsóttu Austurland í sumar og sáust í Reyðarfirði, Seyðisfirði, á Borgarfirði og loks í Mjóafirði.
Erna Friðriksdóttir, skíðakona, hélt utan til Bandaríkjanna til æfinga fyrir vetrarólympíuleika fatlaðra og jólatréð við Kaupfélagið á Egilsstöðum hefur aldrei verið stærra.
Hanna Birna Kristjánsdóttir sprengdi fyrstu sprenginguna fyrir nýjum Norðfjarðargöngum og varð þar með fyrsta konan til að vinna slíkt verk hérlendis. Mynd: GG