Austfirskur fréttaannáll 2013 - Desember

Article Index

rutubjorgun 09102013 nikkibraga 2 webDesember:

Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms Austurlands um að hafna lögbanni Sambands sveitarfélaga á Austurlandi á akstur Sternu með farþega milli Hafnar og Egilsstaða. SSA taldi aksturinn brjóta gegn einkaleyfi sambandsins um almenningssamgöngur. Því höfnuðu dómstólarnir. Framkvæmdastjóri Sternu sakaði SSA um stjórnsýsluklúður en forsvarsmenn sambandsins sögðu grunninn fyrir almenningssamöngum sveitarfélaganna brostinn.

Skólamál voru umdeild við gerð fjárhagsáætlana. Í Neskaupstað var hart deilt um hvort færa ætti Nesgötu niður fyrir væntanlega leikskólabyggingu á Neseyri. Á Héraði var ákveðið að fækka bekkjum í Hallormsstaðarskóla.

Síldarvinnslan seldi Beiti og fékk til sín togara frá grænlensku dótturfélagi sem mun fá nafnið Beitir. Nýja skipið kom til hafnar á Þorláksmessu.

Eldur kom upp í mannlausum enda íbúðarhúss í Neskaupstað. Að mestu tókst að bjarga annarri íbúð í húsinu. Slökkvistarf var erfitt í mikilli hálku.

Leitað var að skipverja af erlendu flutningaskipi sem kom til Reyðarfjarðar. Leitin hefur ekki enn borið árangur.

Árið var gott fyrir austfirska ferðamennsku þótt að hluta væri það litað af miklum deilum um framtíðarstaðsetningu flugvallarins í Reykjavík. Hugmyndir um nýja gönguleið á milli Lóns og Fljótsdals, Austurstræti, vöktu mikla athygli og austfirsk ferðaþjónustuverkefni fengu háa styrki til uppbyggingar. Hjá Tanna Travel urðu kynslóðaskipti þegar Díana Mjöll Sveinsdóttir tók við forstjórahlutverkinu af föður sínum.

Þrátt fyrir aðgerðir Fjarðaáls mældust flúorgildi í grasi í Reyðarfirði enn há. Talsmenn fyrirtækisins sögðu gott sumar stærstu skýringuna. Kastljós fjallaði um málið og þótti sumum sem myndavalið í sjónvarpinu vera til þess fallið að sverta álverið.

Fjármunum var heitið til rannsóknaborana fyrir göng undir Fjarðarheiðagöng. Vegurinn yfir heiðina lokaðist eina ferðina enn í óveðri um jólin. Björgunarsveitarmenn fóru í átta tíma útkall til að koma lækni frá Norðfirði til móts við sjúkling frá Djúpavogi sem var á leið í sjúkraflug á Egilsstöðum á jólanótt.

Austfirskir björgunarsveitarmenn þurftu oft að aðstoða ferðalanga á árinu. Fjórar björgunarsveitir tóku þátt í átta tíma útkalli á aðfangadagskvöldi. Mynd: Nikulás Bragason.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.