Austfirskur fréttaannáll 2013 - Maí
Article Index
Page 6 of 13

Lið Fjarðabyggðar fagnaði sigri í spurningakeppninni Útsvari í sjónvarpinu en Reykvíkingar voru mótherjarnir í úrslitakeppninni.
Aðalverktaka við nýtt hjúkrunarheimili á Eskifirði var vikið frá verkinu eftir langan vandræðagang og skuldir við undirverktaka. Verkið var orðið vel á eftir áætlun.
Vandræði voru með vatnabúskap við Kárahnjúkavirkjun og í álverinu á Reyðarfirði voru undirbúnar aðgerðir ef draga þyrfti úr framleiðslu vegna skorts á rafmagni.
Elvar Jónsson var skipaður skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands. Þórður Júlíusson, sem var settur skólastjóri um veturinn, vakti mikla lukku með að taka að sér hlutverk í uppfærslu leikfélags nemenda á leikverkinu Grease.
Austfirðingar voru slegnir þegar fréttir bárust af því að karlmaður hefði látist með voveiflegum hætti í íbúð sinni í fjölbýlishúsi á Egilsstöðum. Um leið var það staðfest að lögreglan væri með í haldi karlmann á þrítugsaldri grunaðan um verknaðinn. Sá látni var Karl Jónsson, frá Galtastöðum fram en Friðrik Brynjar Friðriksson sat í haldi grunaður um verknaðinn.
Hallveig Guðjónsdóttir frá Heiðarseli gaf út sínu þriðju ljóðabók, 90 ára að aldri. Sögur og ljóð sem endurspegluðu uppvöxt hennar í Jökuldalsheiði voru áberandi í bókinni.
Frá morðrannsókinni á Egilsstöðum. Mynd: GG