Hvað er að (sumum – eða mörgum) foreldrum?

Síðastliðinn föstudag tók ég, fyrir hönd foreldra í MA, þátt í foreldrarölti á Akureyri þar sem ég bý. Þetta er samstarfsverkefni grunnskóla og framhaldsskóla bæjarins, með því er ætlunin að ljá börnum okkar og unglingum lið, veita þeim aðhald og vera til aðstoðar ef skemmtunin fer úr böndunum.


Ólögráða nemendur við MA eru rúmlega 400, og að þeim ættu þá að standa um 800 manns minnst. Það er skemmst frá því að segja að auk mín mætti EITT foreldri.

Nú veit ég af samtölum við foreldra í ME að þar er ekki hlaupið að því að virkja foreldra í þetta starf. Akureyri virðist jafnvel enn erfiðari viðfangs. Algeng undanbrögð fólks þegar til þess er leitað eru: „Barnið mitt er ekki byrjað að drekka, það er bara heima, af hverju ætti ég þá að mæta?“ Sjálfri finnst mér þetta óheyrilega vitlaust og latt viðhorf þótt ég nenni sjaldnast að rökræða við fólk sem er svona þenkjandi. Enda er það segin saga að þeir fáu sem mæta í foreldrarölt eru undantekningarlítið foreldrar sem eiga börn sem eru ekki í neyslu.

Það er heldur ekki þannig að við fáum þakkir frá fólki fyrir að hirða börnin þeirra upp ósjálfbjarga í fjórtán stiga frosti og koma þeim heim. Né fáum við þakkir fyrir framtakið almennt; fyrir utan dræmar undirtektir hef ég persónulega fengið skammarbréf frá foreldrum fyrir að „skipta mér af því sem mér kemur ekki við“ og eitt foreldri dró sig út úr foreldraröltinu áður en það byrjaði vegna þess að unglingarnir hennar urðu fyrir aðkasti í skólanum vegna þess.

Fyrir mig sem kennara er þyngra en tárum taki að kveðja börn brosandi og glöð í lok tíunda bekkjar og mæta þeim nokkrum vikum síðar dauðadrukknum og illa til reika á almannafæri. Það er með ólíkindum hve margir foreldrar láta sig líf og heilsu barna sinna litlu skipta þegar komið er upp í menntaskóla. Hér er smá ábending: Það verða ENGIN stórkostleg stökk í þroska á þeim vikum frá því að grunnskóla lýkur og þar til menntaskóli byrjar. Börnin eru enn börn og þurfa ekki minna á okkur að halda þegar komið er upp á hærra skólastig og þrýstingurinn er meiri. Og gömlu, gatslitnu rökunum um að „svona var þetta nú þegar við vorum ung og það var allt í lagi“ má troða þar sem sólar nýtur ekki við. Þetta var EKKI í lagi þá, fjölmargir báru þess EKKI bætur og við eigum að gera miklu betur við börnin okkar en þetta.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.