Austfirskur fréttaannáll 2014 - September

Article Index

akrafell strand 06092014 0126 webSeptember:

Akrafell, skip Samskipa, sigldi í strand við Vattarnes í utanverðum Reyðarfirði að morgni laugardagsins 6. september eftir að stýrimaður þess sofnaði á vaktinni. Á miðnætti var skipið dregið af strandstað en það var síðar úrskurðað ónýtt og bíður örlaga sinna í höfninni á Reyðarfirði.

Að kvöldi 17. september strandaði svo annað skip, Green Freezer, í Fáskrúðsfirði eftir að hafa fest í bakkgír. Þremur dögum síðar var það dregið af strandstað og síðar utan til viðgerða.

Blá móða með brennisteinsmengun frá gosstöðvunum í Holuhrauni lagðist yfir Austfirðinga. Smalar fundu fyrir óþægindum í göngum og fleiri íbúar einnig þegar mengunin lagðist yfir. Umhverfisstofnun brást við með að koma fyrir mælum. Almannavarnir reyndu að koma skilaboðum um há gildi til íbúa með SMS-skilaboðum en kerfi farsímafyrirtækjanna brugðust.

Björgunarsveitir í Fjarðabyggð voru sendar upp á rangt fjall til bjargar erlendum ferðamönnum í sjálfheldu. Þeir töldu sig vera í klettabelti í Hólmatindi en voru á Ófeigsfjalli.

Óhapp varð í miðbæ Egilsstaða þegar ökumaður ruglaðist á bensíngjöf og bremsu þegar hann hugðist leggja í stæði, fór fram af því og lenti upp á bíl fyrir neðan. Síðar varð atvik í Neskaupstað þar sem bíll kom ofan úr brekku og inn í hlið annars bíls í eigu sömu fjölskyldu.

Á meðan deildu húsráðendur í miðbæ Egilsstaða um skipulag, hvar skildi malbika fyrir bílastæði og hvar ætti að hafa gras. Falleinkunn í leiðarvísi fyrir ferðamenn og umfjöllun Austurfréttar um hann kveikti í umræðunum.

Á Norðfirði og víðar var rætt um leiðbeiningar um klæðaburð stúlkna sem sendar voru foreldrum unglinga á leið á grunnskólaball.

Fjarðabyggð sigraði í annarri deild karla í knattspyrnu og Höttur í þriðju deildinni. Leiknismenn fylgdu Hetti upp um deild.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.