Vill að byrjað verði á vindorkuveri á Esjunni áður en lengra verður haldið

Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis óskaði fyrir nokkru eftir umsögnum sveitarfélaga um fyrirhugað frumvarp til laga um virkjanakosti í vindorku. Múlaþing endursendi sína fyrri umsögn þar sem frumvarpsdrög nú höfðu ekki tekið neinum efnislegum breytingum frá fyrstu tillögum.

Þetta var í annað skipti sem óskað var eftir umsögnum vegna framtíðar vindorkunýtingar í landinu. Fyrri umsagnir um tillögur sérstaks starfshóps umhverfisráðherra um framtíðarskipan þeirra mála en að þessu sinni vegna formlegra frumvarpsdraga til laga.

Frumvarpið gengur í grunninn út á að einfalda uppbyggingu vindorkuvera í landinu til framleiðslu á grænni orku en á sama tíma lágmarka umhverfisáhrif eins og kostur er. Kynna má sér frumvarpið hér í samráðsgátt stjórnvalda en umsagnarfrestur rann út fyrir helgi.

Ekkert breyst efnislega

Umhverfis- og framkvæmdaráð Múlaþings tók þetta fyrir á síðasta fundi sínum þar sem samþykkt var að endursenda fyrri umsögn ráðsins í heild sinni sökum þess að frumvarpsdrög tóku engum efnislegum breytingum frá fyrra samráði við sveitarfélög og hagsmunaaðila.

Þrír aðilar í ráðinu létu sérstaklega bóka gagnrýni sína á framkomin frumvarpsdrög. Annars vegar báðir fulltrúar VG í ráðinu, þau Pétur Heimisson og Ásrún Mjöll Stefánsdóttir sem skrifuðu ekki undir samþykkt þess efnis að endursenda fyrri umsögn. Ítrekuðu þau fyrri gagnrýni að með umsagnardrögum Samtaka orkusveitarfélaga, sem Múlaþing er aðili að, lægi fyrir viss hvatning til þess að opna heiðar og lönd landsins fyrir vindorkukostum á þann veg að það yrði í versta falli á kostnað náttúru- og menningarminja.

Byrjum á Esjunni

Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins í ráðinu, Benedikt V. Warén, gekk enn lengra í sérstakri bókun þar sem hann lýsti furðu á hve einblínt væri á uppsetningu vindorkugarða á landsbyggðinni af hálfu starfshóps ráðherra hvers tillögur frumvarpið byggir á. Lagði hann til annan kost:

Það er undravert hve starfshópur um vindorku einblínir þröngt á að staðsetja vindmyllugarða á landsbyggðinni í stað þess að leggja til slík verkefni nær markaði orkunnar, sem er í Reykjavík. [...] Í Reykjavík, þaðan sem orkumálum þjóðarinnar er stjórnað, dettur engum í hug að nýta besta svæðið fyrir nýtingu vindorku. Áhugasamir um vindmyllugarða gætu auk heldur barið slíkt verkefni augum í hvert sinn er skyggni leyfði. [...] Því er lagt til hér að Esjan, í landnámi Ingólfs Arnarsonar, verði nýtt í risastórt vindmylluverkefni. Fyrr en reynsla af því verkefni liggur fyrir, verði ekki anað af stað í stærri verkefni í vindorku, en sem nemur 9,9 MW.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.