Halla Hrund hæst í könnun Austurfréttar/Austurgluggans

Halla Hrund Logadóttir er sá forsetaframbjóðandi sem nýtur mestrar hylli Austfirðinga, miðað við könnun sem Austurfrétt/Austurglugginn gerði í síðustu viku.

Halla Hrund fékk 33,8% fylgi í könnuninni, Katrín Jakobsdóttir 25,3%, Baldur Þórhallsson 13,6% og Halla Tómasdóttir 12,1%.

Einnig var spurt hvaða frambjóðenda næst líklegast væri að fólk kysi. Þar kom Halla Tómasdóttir best út með 22,6%, Baldur Þórhallsson fékk 17,4%, Katrín Jakobsdóttir 14,9% og Halla Hrund 13,3%. Heildarfylgi allra frambjóðenda er að finna neðst í fréttinni.

Hvernig var könnunin gerð?


Þar sem um opna netkönnun er að ræða en ekki könnun sem send er á afmarkaðan hóp sem ætlað er að endurspegla þjóðina er rétt að gera vel grein fyrir aðferðafræðinni og þeim áhrif sem hún kann að hafa á fylgi.

Alls bárust 198 svör í könnuninni. 15% þeirra koma frá fólki sem býr ekki á Austurlandi. Sé aðeins horf til svara Austfirðinga þá er nær enginn munur í fylginu, nema að fylgi við Höllu Hrund eykst upp í 37,4%. Það virðist kvarnast jafnt af öðrum.

Austurfrétt hefur til þessa greint frá könnunum Maskínu, sem eru þær einu sem hafa verið birtar með niðurbroti niður á landshluta. Þar hafa svörin síðustu tvær vikur verið rúmlega 40 af Austurlandi, og þar áður rúmlega 30. Á móti eru eiga kannanir Maskínu aðferðafræðilega sterkari.

Þess vegna þarf að skoða hvernig þátttakendur í könnun Austurfréttar/Austurgluggans skiptast eftir hópum og bera bæði það og aðrar upplýsingar saman við það sem fram hefur komið í könnunum könnunarfyrirtækja til að túlka betur niðurstöðurnar.

Hvað er hægt að lesa út úr könnuninni?


Þar er helst að nefna að aldurshópurinn 65 ára og eldri er stærstur í könnun Austurfréttar/Austurgluggans. Þótt elsti aldurshópurinn sé almennt stór þá hefur hann meira vægi í okkar könnun en annarra. Í þeim hópi hefur Jón Gnarr mælst með lítið fylgi á landsvísu, sem kann að skýra að hluta slæma útkomu hans í okkar könnun. Þá eru karlmenn 57% svarenda en þeir um 53% íbúa Austurlands. Það þýðir að svör þeirra fá óvenjumikið vægi.

Á landsvísu hafa Halla Hrund og Katrín komið best út meðal þessara tveggja hópa, það er 65 ára og eldri og karlmanna. Þær gera það einnig í könnun Austurfréttar/Austurgluggans. Þannig mælist Halla Hrund með 44% fylgi meðan 65 ára og eldri og 40% meðal karla. Þetta þýðir að fylgi þeirra í könnuninni kann að vera ýkt á kostnað þeirra sem næstir koma. Það breytir ekki þeirri heildarmynd sem fram kemur í bæði okkar könnun og athugunum Maskínu að Halla Hrund nýtur mest fylgis á Austurlandi.

Aðrar breytur, svo sem að Seyðfirðingar voru hlutfallslega margir meðal svarenda, breyta ekki þeirri mynd frekar en aðrar breytur. Ólíkt könnunum Maskínu var ekki spurt um menntun, tekjur eða stjórnmálaskoðanir svarenda.

Könnunin var upphaflega sett í loftið að morgni miðvikudagsins 8. maí. Eftir nokkra klukkutíma barst ábending um að nafn Ástþórs Magnússonar vantaði í hóp þeirra sem hægt væri að velja. Þess vegna var byrjað aftur frá grunni. Þau svör sem hér hafa verið talin upp koma því öll eftir að nafni Ástþórs var bætt við. Það virðist þó engu hafa breytt, sé horft til þeirra tuga svara sem borist höfðu við fyrri könnuninni.

Nánar verður fjallað um önnur atriði sem spurt var út úr í könnuninni síðar. Þá hafa allir frambjóðendur fengið spurningar sendar frá Austurglugganum. Svör verða birt í blaðinu sem kemur út 23. maí.



Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.