Andlát: Stefán Már Guðmundsson

Stefán Már Guðmundsson, framhaldsskólakennari og formaður Íþróttafélagsins Þróttar í Neskaupstað lést í gær, 55 ára að aldri.


Stefán Már fæddist í Reykjavík 18. júlí árið 1961. Hann lærði smíði og starfaði í greininni áður en hann flutti norður á Þórshöfn og tók til starfa sem íþróttakennari.

Hann flutti aftur suður áður en hann fór í íþróttakennaraháskólann á Laugarvatni. Að loknu námi starfaði hann sem kennari í Rimaskóla og æskulýðsfulltrúi á Akranesi áður en hann flutti aftur norður á Langanes og gerðist skólastjóri Svalbarðsskóla í Þistilfirði.

Þaðan flutti Stefán Már austur á Reyðarfjörð og réði sig sem aðstoðarskólastjóra áður en hann flutti sig yfir á Norðfjörð og kenndi íþróttir og smíðar við Verkmenntaskólann.

Stefán Már var athafnasamur í íþrótta- og æskulýðsmálum. Hann ólst upp í íþróttafélaginu Víkingi og var virkur í skátastarfi. Hann var framkvæmdastjóri Ungmennasambands Norður-Þingeyinga, meðal stofnenda Ungmennafélagsins Fjölnis í Grafarvogi, í stjórn Knattspyrnufélags Fjarðabyggðar og formaður Þróttar undanfarin ár.

Hann starfaði einnig í stjórnmálum, var í þingframboði fyrir Bjarta framtíð fyrir síðustu tvennar kosningar og í Fjarðabyggð var starfaði Stefán Már með Fjarðalistanum og var um tíma bæjarfulltrúi. Á yfirstandandi kjörtímabili var hann varamaður í íþrótta- og tómstundanefnd.

Eftirlifandi eiginkona Stefáns Más er Vilborg Stefánsdóttir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.