Húsnæði Austurljóss talið gjörónýtt eftir eldsvoða – myndir
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 12. maí 2024 13:51 • Uppfært 13. maí 2024 15:51
Húsnæði fjarskiptafyrirtækisins Austurljóss á Egilsstöðum er talið gjörónýtt eftir eldsvoða í dag. Mikill eldur var þegar slökkviliðið kom á staðinn. Næsti brunahani reyndist ótengdur þegar til átti að taka.
Tilkynnt var um eld í húsnæðinu að Miðási 18 klukkan 11:19 í morgun. Hinu megin í húsinu, Miðási 16, er fyrrum líkkistuverkstæði. Slökkviliðinu tókst að verja það bil fyrir öðru en reyk.
Ingvar Ríkharðsson, varðstjóri hjá Slökkviliði Múlaþings, segir að mikill eldur hafi verið í húsnæðinu þegar slökkviliðið kom á staðinn. „Það var nánast orðið alelda.“
Hann segir slökkvistarfið almennt hafa gengið vel og fljótlega náðst tök á eldinum. Þar sem húsnæðið er komið til ára sinna þótti ekki óhætt að senda reykkafara inn. Þess í stað var fenginn skotbómulyftari sem rauf útvegg hússins þannig hægt væri að komast að eldinum.
Slökkviliðið er enn á staðnum og er að slökkva í glæðum. Fengnar voru vinnuvélar til að moka braki frá. Ingvar telur að um altjón á þeim hluta hússins sem brann, annars vegar sé það hálfrifið og hins vegar það sem inni í því var brunnið.
Óvirkur brunahani
Húsið er á því svæði sem Egilsstaðabúar tala um sem „iðnaðarhverfið“ yst í því stendur húsnæðið sem áður hýsti verslunina og efnalaugina Vask sem skemmdist í stórbruna haustið 2022. Í kjölfar þess komu upp umræður um eldsvarnir á svæðinu, en slökkvilið þurfti þá að leggja langar slöngur til að komast í vatn.
Vandræði með slíkt komu aftur upp í morgun. „Við ætluðum að tengja okkur inn á nýjan brunahana sem var 60 metra frá. Þá reyndist ekkert vatn á honum og hann ótengdur. Við þurftum í staðinn að tengja okkur við brunahana sem var 200 metra í burtu,“ segir Ingvar.
Hann segir það ekki hafa komið að sök í þessu tilfelli þar sem nóg hafi verið á tankbíl slökkviliðsins til að halda út meðan tengt var við virkan brunahanar.
Eldsupptök eru ókunn en húsið var mannlaust er eldurinn kom upp.
Athugasemd: Eftir að slökkvistarfi kom í ljós kom í ljós að í flýtinum við slökkvistarfið urðu mannleg mistök til þess að ekki fékkst vatn úr brunahananum.
Myndir: Stefán Bogi Sveinsson og Unnar Erlingsson