Austfirskur fréttaannáll 2014

Article Index

akrafell strand 06092014 0070 webBjörgunarsveitarmenn voru sennilega ein uppteknasta starfsstétt Austurlands á árinu. Það byrjaði á útköllum til bjargar ferðalöngum í snjó en ein stærstu verkefnin voru trúlega þegar tvö stór flutningaskip sigldu í strand með tíu daga millibili í september.

Nýir meirihlutar voru myndaðir í tveimur sveitarfélögum í kjölfar sveitastjórnarkosninga. Kosningabaráttan var stutt og snörp.

Ferðamenn flykktust austur í sólina þegar þeir höfðu ekki lengur birtuna af sjónvarpstækjum sínum að loknu heimsmeistaramótinu í knattspyrnu.

Loðnuvertíðin brást en þrjú ný skip bættust í austfirska flotann og Síldarvinnslan keypti útgerðina á Seyðisfirði.

Kvikmyndatökulið Fortitude-þáttanna tók ástfóstri við Austfirði og Austfirðinga og öfugt enda bíða margir spenntir eftir frumsýningu þeirra. Njóti þættirnir vinsælda eru líkur á að fleiri þáttaraðir verði teknar upp á svæðinu.

Við stiklum hér á því helsta sem gerðist árið 2014.

lodnuskip sfk jan14 omarb 2Janúar:

Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað var kölluð út strax á nýársnótt til hjálpar ferðalöngum í vanda. Fyrstu fréttir ársins snérust um ófærð og rafmagnsleysi. Snjórinn var mikill og til viðbótar voru bílstjórar ósáttir við hálkuvarnir Vegagerðarinnar.

Úrkomumet var sett á nokkrum veðurstöðvum og á láglendi var mánuðurinn hlýr. Þrátt fyrir allan snjóinn og úrkomuna þurfti Fjarðaál að draga úr framleiðslu sinni þar sem ekki var nægt vatn í uppistöðulónum.

Línumenn Landsnets á Austurlandi voru nær stöðugt að störfum fyrstu vikur og mánuði ársins, oft við erfiðar aðstæður.

Hannesi Sigmarssyni, fyrrum yfirlækni í Fjarðabyggð, voru dæmdar 15 milljónir króna í bætur þar sem ekki var rétt staðið að uppsögn hans af hálfu Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Fjármálaráðuneytið ákvað að áfrýja dóminum ekki til Hæstaréttar.

Persónuvernd setti ofan í við félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs sem hafði neitað að greiða út bætur til skjólstæðings nema hann skilaði þvagsýni til að sanna að hann væri ekki undir áhrifum lyfja.

Sautján norsk loðnuveiðiskip lágu hlið við hlið við mögulega bryggjukanta á Seyðisfirði. Þau leituðu skjóls undan brælu á miðunum. Loðnan lét annars vart sjá sig.

Nýr ós var grafinn fyrir Lagarfljót á Héraðssandi en fljótið hefur fært sig til norðurs síðustu ár og jökulvatnið ógnaði veiði í ferskvatnsám. Brimið lokaði ósinum hins vegar á nokkrum dögum. Nýr var svo grafinn í júní.

Norska fyrirtækið NorSeaGroup tilkynnti áform sín um að byggja upp þjónustu við mögulega olíuleit á Drekasvæðinu frá Vopnafirði.

Feðgarnir Friðþór Harðarson og Sigurður Friðþórsson voru valdir Austfirðingar ársins af lesendum Austurfréttar. Þeir björguðu fjölskyldu úr brennandi húsi í Hamarsfirði í nóvember.

Eigandi smáhunds í Neskaupstað, sem í þrígang hafi bitið fólk svo sár hlaust af, neitaði að láta aflífa hann. Austfirsk sveitarfélög breyttu síðar reglum sínum eftir að úrskurðarnefnd hafði úrskurðað hundaeigandanum í hag.

Tökur hófust á Fortiutude-spennuþáttunum sem eru viðamesta leikna þáttaröð sem Sky sjónvarpsstöðin breska hefur lagt í. Stórstjörnur á borð við Michael Gambon, Stanley Tucci og Luke Treadaway sáust á skokkinu á Austfjörðum. Margir buðu sig fram þegar leitað var eftir aukaleikurum af Austfjörðum. Framleiðendur þáttanna voru ánægðir með allt nema – eins einkennilegt og það hljómaði – snjóleysið!


forseti sfk 0120 webFebrúar:

Stúlknaliðið 0% englar úr Brúarásskóla sigraði í landskeppni í Lego-þrautum og hlaut að launum ferð í Evrópukeppnina á Spáni.

Nýr Beitir kom til hafnar í Neskaupstað og Síldarvinnslan festi einnig kaup á nýjum Berki sem er eitt glæsilegasta skip íslenska flotans.

Loðnuvertíðin skánaði lítið en úti fyrir Reyðarfirði veiddi Bergey VE virkt tundurdufl. Sprengjusérfræðingar Landhelgisgæslunnar eyddu því.

Austfirðingar stóðu fyrir stórum fundi um flugmál og kröfðust lægri fargjalda. Innanríkisráðherra, Hanna Birna Kristjánsdóttir, mætti á fundinn og hét aðgerðum.

Hún fundaði síðar sama dag með Sjálfstæðismönnum á svæðinu þar sem lekamálið var meðal annars til umræðu. Hún sagði þar að ráðuneytið hefði ekkert að fela.

Bilun við Sigöldu olli keðjuverkun í raforkukerfinu og skemmdi raftæki á Austurlandi. Umræður voru um fulllestaða byggðalínu og óviðunandi afhendingu raforku í fjórðungnum.

Forsetahjónin heimsóttu Fljótsdalshérað og Seyðisfjörð en menningarverðlaunin Eyrarrósin voru afhent á síðarnefnda staðnum. Forsetafrúin tók ástfóstri við nýfæddan kálf á Egilsstaðabúin og forsetinn dæmdi í kökukeppni í Skaftfelli.

Fjögurra metra hár snjóskafl sem lokaði munna Norðfjarðarganga vakti mikla athygli. Samgöngur voru erfiðar yfir fjallvegi og svo fór að Vegagerðin fækkaði mokstursdögum á Vopnafjarðarheiði og Möðrudalsöræfum því ekki var talið hægt að halda leiðunum opnum. Talsmenn stofnunarinnar svörðu af sér fullyrðingar um að það væri gert í sparnaðarskyni.


erna keppni1 3Mars:

Forsætisráðherra veitti 52 milljónum króna í sjö verkefni á sviði minjaverndar á Austurlandi. Styrkveitingarnar voru harðlega gagnrýndar fyrir hvernig af þeim var staðið en upplýst var að þáverandi forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði hefði sótt um styrkinn með SMS-skilaboðum. Forsendur fleiri styrkja þóttu hæpnar.

Erna Friðriksdóttir úr Skíðafélaginu Stafdal keppti á Vetrarólympíuleikum fatlaðra í Sochi í Rússlandi og var fánaberi Íslands á setningarafhöfninni.

Komið var upp slám til að loka fjallvegum en ekki tóku allir mark á þeim. Björgunarsveitarmenn frá Vopnafirði fóru í 14 tíma útkall til að bjarga manni sem sat fastur eftir að hafa farið framhjá slá.

Á Seyðisfirði varð ófærðarmynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Fjarðarheiði að innblæstri fyrir listaverk myndlistarnema.

Norðfirðingar glöddust yfir stórri höfrungavöðu sem synti um fjörðinn.

Íbúar og sveitarstjórnarmenn á Seyðisfirði og í Fjarðabyggð deildu harðlega um ferjuna Norrænu en forsvarsmenn færeysku útgerðarinnar sýndu áhuga á að flytja hana til Eskifjarðar. Engin hreyfing hefur verið í þeim málum síðan á vormánuðum.

Deilur voru líka innan bæjarstjórnar Seyðisfjarðar þar sem fulltrúi meirihluta óskaði eftir áliti á hvort bæjarfulltrúar minnihlutans hefðu brotið siðareglur. Úrskurðurinn var á þá leið að kjörnir fulltrúar ættu ekki að nota siðareglur í pólitískum slag en fleiri klögumál gengu á milli bæjarfulltrúanna, meðal annars um boð í hádegisverð með forsetanum.

Lögreglan fjarlægði matarrauðvín úr sölu í Nettó á Egilsstöðum. Fyrirtækið taldist hafa sín mál í lagi og rauðvínið fór aftur í sölu nokkrum dögum síðar.

Mánuðinum lauk á tilkynningu forsvarsmanna Vísis á að allri vinnslu á Djúpavogi yrði hætt og hún flutt til Grindavíkur að loknu sumarfríi. Starfsmönnum var boðið að flytja með starfseminni. Sveitastjórn Djúpavogs brást hart við og hóf mikla baráttu fyrir því að halda í vinnsluna. Ákvörðuninni var síðan frestað en í lok árs fór Vísir alfarið af svæðinu. Nýtt fyrirtæki mun þó verða með vinnslu þar.


Villaogsjóræningjarnir02Apríl:

Aprílgabb Austurfréttar snérist um ódýr flugfargjöld til Reykjavíkur ef menn bókuðu þau á flugvellinum á Egilsstöðum. Einhverjir hlupu apríl og fannst það misfyndið.

Á Fáskrúðsfirði var hætt við að hafa sameiginlegan stjórnanda yfir grunn- og leikskólanum í tilraunaskyni í einn vetur á meðan leikskólastjórinn yrði í námsleyfi eftir hörð mótmæli kennara.

Gjaldkera starfsmannafélags Fjarðaáls var vikið frá störfum eftir að grunur vaknaði um að hann hefði dregið sér milljónir úr sjóði félagsins

Leikfélag Seyðisfjarðar setti upp frumsamið leikverk um Villu og sjóræningjana. Aðalleikkonan var ellefu ára gömul.

Mikil umræða var um fjölmiðlun á Austurlandi. Rannsókn staðfesti hversu verulega hefði dregið úr henni eftir að útsendingum svæðisútvarps Ríkisútvarpsins var hætt. Fræðimenn hvöttu Austfirðinga til að styðja betur við þá miðla sem til staðar væru á svæðinu.

Þróttur í Neskaupstað beið lægri hlut fyrir Aftureldingu í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í blaki kvenna. Karlalið Hattar í körfuknattleik tapaði fyrir Fjölni í úrslitarimmu um laust sæti í úrvalsdeild.

Samið var við framkvæmdastjóra Austurbrúar um starfslok eftir langvinnar og hatrammar deilur innan stofnunarinnar. Samhliða var ráðist í vinnu á skipuriti og umhverfi stofnunarinnar til að tryggja framtíð hennar.


vodlavik 0202 webMaí:

Þýskir ferðamenn virtust hafa áhyggjur af því að verða svangir því tollurinn á Seyðisfirði gerði upptækar niðursoðnar pylsur og vín sem þeir höfðu með sér til landsins í rútuferðum.

Héraðsdómur ógilti kaup Síldarvinnslunnar á Berg-Huginn og taldi Vestmannaeyjabæ hafa forkaupsrétt að bréfunum.

Leitað að þremur ungum telpum frá Egilsstöðum. Þær gáfu sig fram á sveitabæ á Völlum um 16 fyrir innan þéttbýlið. Þær höfðu farið í kvöldgöngu því þeim leiddist.

Norðfirðingurinn Guðni Finnsson steig á svið með Pollapönki í Kaupmannahöfn þar sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin.

Í Norðfjarðarsveit fæddist sexfætt lamb. Bóndinn var svekktur með að hafa fengið fjóra framparta en ekki læri.

Eykon Energy kynnti um að það hygðist gera út olíuleit frá Fjarðabyggð. Lítið gerðist annars í leitinni í sumar.

Seyðfirðingar fengu verðlaun Heimilis og skóla fyrir spurningakeppnina Viskubrunn sem þótt dæmi um vel heppnaða samvinnu nemenda og foreldra.

Fjölmenni var í Vöðlavík þar sem minnisvarði var afhjúpaður um björgunarafrek sem unnin voru tuttugu árum fyrr þegar Bergvík VE og Goðinn fórust. Meðal gesta var flugmaður þyrlusveitar bandaríska hersins sem tók þátt í björguninni.

Nýtt framboð á Vopnafirði, Betra Sigtún, hristi upp í kosningunum þar en Sjálfstæðismönnum tókst ekki að manna lista. Öll hreppsnefndin hætti á Breiðdalsvík og þar var óhlutbundin kosning í fyrsta sinn í áratugi. Á Seyðisfirði sameinuðustu vinstri menn í einu framboði og nýtt framboð var hársbreidd frá meirihluta í Djúpavogshreppi.

Á Egilsstöðum kom fram nýtt framboð sem vakti nokkra athygli, ekki síst fyrir þær sakir að ekki könnuðust allir við að hafa samþykkt að taka sæti á listanum. Kona sem fór að kaupa í matinn og taldi sig vera skrifa undir meðmælalista varð undrandi þegar nafn hennar birtist ofarlega á listanum.


meirihlutasamningur fherad 0030 webJúní:

Nýr meirihluti var myndaður á Vopnafirði þar sem Betra Sigtún valdi K-lista og skildi framsóknarmenn eftir eina í minnihluta.

Á Fljótsdalshéraði slitnaði upp úr meirihlutaviðræðum Framsóknarmanna og Á-lista. Framsóknarmenn reyndu að koma á samstarfi allra framboðanna fjögurra í bæjarstjórn. Sú hugmynd var andvana fædd og hin framboðin þrjú mynduðu meirihluta án framsóknar.

Helgi Hallgrímsson, náttúrufræðingur á Egilsstöðum var sæmdur fálkaorðunni. Smári Geirsson, sagnfræðingur í Neskaupstað, hafði hlotið hana fyrr á árinu.

Flutningaskipið UTA var kyrrsett í Mjóeyrarhöfn og tók nokkrar vikur að greiða úr málinu þar sem skipafélagið var gert gjaldþrota.

Heilbrigðiseftirlit Austurlands gerði athugasemdir við að kjöt sem framleitt hefði verið í Ástralíu hefði fengið verið stimplað í Hollandi rétt fyrir síðasta söludag og selt áfram til Íslands með nýjum stimpli. Kjötið átti að vera á borðum í mötuneyti Fjarðaáls.

Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfirði festi kaup á nýju Hoffelli sem kom frá Noregi.

Héraðsskjalasafn Austurlands opnaði ljósmyndavef með gömlum myndum. Austfirðingar tóku vel í vefinn og voru duglegir að deila myndum og minningum á samfélagsmiðlum.


laufabraud jol i juli ehhJúlí:

Viðbragðsaðilar voru kallaðir út þegar lítil flugvél hvarf af ratsjám yfir Austfjörðum í svartaþoku. Hún lenti heilu og höldnu skömmu síðar á Egilsstaðaflugvelli.

Ár í fjórðungnum margfölduðust í miklum rigningum.

Eldur braust út í einu matvöruversluninni á Vopnafirði. Henda þurfti öllum lager verslunarinnar. Vopnfirðingar einhentu sér í að koma henni í rekstur á ný og voru fljótir að.

Ferðamenn tóku loks eftir sólinni á Austurlandi þegar talsmaður ferðaþjónustuaðila kom í viðtal á Austurfrétt, strax að lokinni heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu. Sumarið var einstaklega sólríkt en um leið þurrt. Gestirnir nutu þess, tjaldsvæði fylltust og talað var um „Costa del Atlavík."

Sumir gestanna vöktu meiri athygli en aðrir, til dæmis svissneskur ferðamaður sem kom með Norrænu á 60 ára gamalli dráttarvél sem hann hafði gert upp sjálfur og hafðist við í tréhýsi sem hann hafði einnig smíðað og vél dró.

Fjölmenni var á Bræðslunni á Borgarfirði sem fyrr en þar vöktu uppátækjasamir veitingamenn landsathygli þegar þeir héldu Jól í júlí. Skorið var út laufabrauð og dansað var í kringum jólatréð í jólafötunum.


sannleiksnefnd 23082014 0047 webÁgúst:

Seinheppinn trillusjómaður strandaði í Eskifirði í annað skiptið á sumrinu, að þessu sinni á afmælisdaginn. Allt fór þó vel og björgunarsveitin færði honum köku í tilefni dagsins.

Fjöldi farþega kom með skemmtiferðaskipum til Austfjarða. Skipstjóri eins þeirra vakti hins vegar litla lukku þegar hann neitaði að leggjast að bryggju á Seyðisfirði af ótta við veðrið.

Íbúar á Reyðarfirði skefldust þegar Matvælastofnun ráðlagði þeim að skola ber og jurtir af svæðinu fyrir neyslu til að ná af þeim flúor. Há gildi mældust áfram frá álverinu og skýringar fundust ekki. Kallað var eftir frekari útskýringum á tölunum og enskur prófessor sem Fjarðaál fékk til aðstoðar sagði Reyðfirðingum að þeir þyrftu ekkert að óttast.

Viðbragðsaðilar undirbjuggu sig vegna hugsanlegs eldgoss í Bárðarbungu. Ferðamenn og skálaverðir voru ferjaðir af svæðinu eftir að ákveðið var að loka stóru svæði norðan og austan Vatnajökuls. Mörgum þótti lokaða svæðið þó óþægilega stórt.

Könnunarborun vegna mögulegra vegganga undir Fjarðarheiði var hætt eftir að borinn festist. Það var samt ekki talið hafa áhrif á rannsóknir.

Ólafur Bragi Jónsson, akstursíþróttamaður frá Egilsstöðum, varð heimsmeistaratign sína í torfæruakstri.

Skólameistarar austfirsku framhaldsskólanna tóku fyrir busavígslur og sögðu þær tímaskekkju.

Og tilvist Lagarfljótsormsins var staðfest þegar fjölskipuð sannleiksnefnd komst að þeirri niðurstöðu að myndband Hjartar Kjerúlf, bónda á Hrafnkelsstöðum í Fljótsdal, sýndi orminn. Niðurstaðan vakti heimsathygli því margir af helstu fjölmiðlum heims hafa fjallað um hana.


akrafell strand 06092014 0126 webSeptember:

Akrafell, skip Samskipa, sigldi í strand við Vattarnes í utanverðum Reyðarfirði að morgni laugardagsins 6. september eftir að stýrimaður þess sofnaði á vaktinni. Á miðnætti var skipið dregið af strandstað en það var síðar úrskurðað ónýtt og bíður örlaga sinna í höfninni á Reyðarfirði.

Að kvöldi 17. september strandaði svo annað skip, Green Freezer, í Fáskrúðsfirði eftir að hafa fest í bakkgír. Þremur dögum síðar var það dregið af strandstað og síðar utan til viðgerða.

Blá móða með brennisteinsmengun frá gosstöðvunum í Holuhrauni lagðist yfir Austfirðinga. Smalar fundu fyrir óþægindum í göngum og fleiri íbúar einnig þegar mengunin lagðist yfir. Umhverfisstofnun brást við með að koma fyrir mælum. Almannavarnir reyndu að koma skilaboðum um há gildi til íbúa með SMS-skilaboðum en kerfi farsímafyrirtækjanna brugðust.

Björgunarsveitir í Fjarðabyggð voru sendar upp á rangt fjall til bjargar erlendum ferðamönnum í sjálfheldu. Þeir töldu sig vera í klettabelti í Hólmatindi en voru á Ófeigsfjalli.

Óhapp varð í miðbæ Egilsstaða þegar ökumaður ruglaðist á bensíngjöf og bremsu þegar hann hugðist leggja í stæði, fór fram af því og lenti upp á bíl fyrir neðan. Síðar varð atvik í Neskaupstað þar sem bíll kom ofan úr brekku og inn í hlið annars bíls í eigu sömu fjölskyldu.

Á meðan deildu húsráðendur í miðbæ Egilsstaða um skipulag, hvar skildi malbika fyrir bílastæði og hvar ætti að hafa gras. Falleinkunn í leiðarvísi fyrir ferðamenn og umfjöllun Austurfréttar um hann kveikti í umræðunum.

Á Norðfirði og víðar var rætt um leiðbeiningar um klæðaburð stúlkna sem sendar voru foreldrum unglinga á leið á grunnskólaball.

Fjarðabyggð sigraði í annarri deild karla í knattspyrnu og Höttur í þriðju deildinni. Leiknismenn fylgdu Hetti upp um deild.


gullver svn 01102014 0007 webOktóber:

Mánuðurinn byrjaði á stórtíðindum en lögregluþjóni á Egilsstöðum var vikið frá störfum vegna gruns um brot í starfi. Hann var talinn hafa sektað erlenda ferðamenn fyrir umferðarlagabrot en síðan stungið sektunum í vasann.

Sama dag var tilkynnt um kaup Síldarvinnslunnar á útgerð Gullbergs á Seyðisfirði, nokkrum dögum eftir að framkvæmdastjóri Gullbergs hafði neitað frétt DV um að nokkuð slíkt væri í gangi.

Þar var einnig haldið Íslandsmótið í boccia í umsjón íþróttafélagsins Viljans. Tugir keppenda af öllu landinu sóttu mótið.

Á Eskifirði var nýtt hjúkrunarheimili tekið í notkun að viðstöddu fjölmenni. Heilbrigðisráðherra var þó fjarri góðu gamni því hann missti af morgunfluginu austur vegna misskilnings í ráðuneytinu. Mynd sem náðist af einkabifreið yfirlögregluþjóns í stæði fatlaðra vakti mikla athygli.

Rekstur kjörbúðarinnar á Borgarfirði komst í hendur nýrra aðila en opnunartími hennar hafði verið stopull.

Hugmyndir meirihlutans í bæjarstjórn Fjarðabyggðar um að flytja nemendur úr efri bekkjum Stöðvarfjarðarskóla á Fáskrúðsfjörð í sparnaðarskyni féllu vægast sagt í grýttan jarðveg. Heimamenn brugðust hart við og mættu á bæjarstjórnarfund. Öðrum hagræðingarhugmyndum í skólamálum var einnig illa tekið. Horfið var frá þeim í bili og endurskoðun rekstur skólanna felldur undir heildarúttekt á rekstri sveitarfélagsins.


Honnunarverdlaun1Nóvember:

Umræða var um vopnaburð lögreglu um allt land. Í fórum austfirskra lögregluþjóna reyndust skammbyssur og kindabyssur.

Upplýsingamiðstöð Austurlands var lokað vegna fjárskorts hjá Austurbrú. Í framhaldinu fór af stað samtal og endurskoðun á framtíðarfyrirkomulagi miðstöðvarinnar.

Garnaveiki greindist á bæ í Hróarstungu. Fljótt kom í ljós að hún var víðar. Brugðist var við með víðtækri bólusetningu.

Austfirska verkefnið Designs from Nowhere hlaut Hönnunarverðlaun Íslands og nokkrum dögum síðar hlaut LungA-skólinn á Seyðisfirði nýsköpunarverðlaun Morgunblaðsins meðal austfirskra fyrirtækja. Fyrr á árinu hlutu ábúendur í Fossárdal í Berufirði Landbúnaðarverðlaunin.

Fimm blaklið af höfuðborgarsvæðinu hótuðu að vera ekki með ef forkeppni bikarkeppninnar yrði haldin í Neskaupstað vegna bágrar fjárhagsstöðu og ferðakostnaðar en buðust þess í stað til að borga undir Þróttarliðið suður. Fleiri slík tilvik komu í ljós. Flest liðin skiluðu sér hins vegar austur.

Þrír Austfirðingar tóku þátt í Evrópumótinu í hópfimleikum sem haldið var með glæsibrag í Laugadalshöll.


Raud jol HakonarstadirDesember:

Forstjóraskipti urðu hjá Fjarðaáli í byrjun nóvember þegar Janne Sigurðsson varð gerð að yfirmanni tölvumála hjá Alcoa á heimsvísu og Magnús Þór Ásmundsson tók við af henni. Frekari breytingar á yfirstjórninni fylgdu í kjölfarið. Magnús tók þátt í átaki Barnaheilla og mætti í jólapeysu á starfsmannafundi þegar hann hafði safnað yfir 200.000 krónum í áheit.

Austfirðingar og Sunnlendingar toguðust á um lögregluna á Höfn allt árið í tengslum við sameiningu lögreglu- og sýslumannsembætta. Framan af átti hún að tilheyra Austfjarðaumdæmi en um sumarið komu fram ný drög þar sem Höfn var færð undir Suðurlandsembættið. Síðasta embættisverk Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem dómsmálaráðherra, var að færa hana undir austurumdæmið en fyrsta verk Ólafar Nordal í ráðherrastól var að breyta því til baka. Ályktanir höfðu gengið á víxl og var það mat austfirskra sveitarstjórna að lögreglan á Höfn ætti að heyra undir austurumdæmið, þar sem hún hefur í raun verið síðustu sjö ár.

Metafla var landað á Borgarfirði og Djúpavogi á árinu.

Í Neskaupstað minntust menn þess að 40 ár voru liðin frá tveimur snjóflóðum sem urðu 12 manns að bana og lömuðu atvinnu- og bæjarlífið í fleiri vikur.

Rafmagnslaust var á Breiðdalsvík í tæpan sólarhring viku fyrir jól eftir bilun í spenni. Varaaflstöð var ekki í fjórðungnum því hún hafði verið flutt til Þórshafnar til að bregðast við áföllum vegna eldgoss í Bárðarbungu og fá þurfti nýjan spenni úr Reykjavík. Á meðan fór hitastig í íbúðarhúsum á staðnum undir tíu stig.

Dýraeigendur á mið-Austurlandi lýstu óánægju sinni með að enga dagþjónustu var að fá á svæðinu í þrjár vikur yfir jól og áramót og beindu spjótum sínum að Matvælastofnun sem viðurkenndi að ástandið væri ekki boðlegt.

Haustið var hlýtt en úrkomusamt. Jólin voru rauð á stöðum þar sem menn voru vanir því að hafa snjó, til dæmis á ofanverðum Jökuldal.
oddsskardsgong 22022014 aldis stef


Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.