Austfirskur fréttaannáll 2014 - Maí

Article Index

vodlavik 0202 webMaí:

Þýskir ferðamenn virtust hafa áhyggjur af því að verða svangir því tollurinn á Seyðisfirði gerði upptækar niðursoðnar pylsur og vín sem þeir höfðu með sér til landsins í rútuferðum.

Héraðsdómur ógilti kaup Síldarvinnslunnar á Berg-Huginn og taldi Vestmannaeyjabæ hafa forkaupsrétt að bréfunum.

Leitað að þremur ungum telpum frá Egilsstöðum. Þær gáfu sig fram á sveitabæ á Völlum um 16 fyrir innan þéttbýlið. Þær höfðu farið í kvöldgöngu því þeim leiddist.

Norðfirðingurinn Guðni Finnsson steig á svið með Pollapönki í Kaupmannahöfn þar sem Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva var haldin.

Í Norðfjarðarsveit fæddist sexfætt lamb. Bóndinn var svekktur með að hafa fengið fjóra framparta en ekki læri.

Eykon Energy kynnti um að það hygðist gera út olíuleit frá Fjarðabyggð. Lítið gerðist annars í leitinni í sumar.

Seyðfirðingar fengu verðlaun Heimilis og skóla fyrir spurningakeppnina Viskubrunn sem þótt dæmi um vel heppnaða samvinnu nemenda og foreldra.

Fjölmenni var í Vöðlavík þar sem minnisvarði var afhjúpaður um björgunarafrek sem unnin voru tuttugu árum fyrr þegar Bergvík VE og Goðinn fórust. Meðal gesta var flugmaður þyrlusveitar bandaríska hersins sem tók þátt í björguninni.

Nýtt framboð á Vopnafirði, Betra Sigtún, hristi upp í kosningunum þar en Sjálfstæðismönnum tókst ekki að manna lista. Öll hreppsnefndin hætti á Breiðdalsvík og þar var óhlutbundin kosning í fyrsta sinn í áratugi. Á Seyðisfirði sameinuðustu vinstri menn í einu framboði og nýtt framboð var hársbreidd frá meirihluta í Djúpavogshreppi.

Á Egilsstöðum kom fram nýtt framboð sem vakti nokkra athygli, ekki síst fyrir þær sakir að ekki könnuðust allir við að hafa samþykkt að taka sæti á listanum. Kona sem fór að kaupa í matinn og taldi sig vera skrifa undir meðmælalista varð undrandi þegar nafn hennar birtist ofarlega á listanum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.