Austfirskur fréttaannáll 2014 - Mars

Article Index

erna keppni1 3Mars:

Forsætisráðherra veitti 52 milljónum króna í sjö verkefni á sviði minjaverndar á Austurlandi. Styrkveitingarnar voru harðlega gagnrýndar fyrir hvernig af þeim var staðið en upplýst var að þáverandi forseti bæjarstjórnar á Fljótsdalshéraði hefði sótt um styrkinn með SMS-skilaboðum. Forsendur fleiri styrkja þóttu hæpnar.

Erna Friðriksdóttir úr Skíðafélaginu Stafdal keppti á Vetrarólympíuleikum fatlaðra í Sochi í Rússlandi og var fánaberi Íslands á setningarafhöfninni.

Komið var upp slám til að loka fjallvegum en ekki tóku allir mark á þeim. Björgunarsveitarmenn frá Vopnafirði fóru í 14 tíma útkall til að bjarga manni sem sat fastur eftir að hafa farið framhjá slá.

Á Seyðisfirði varð ófærðarmynd úr vefmyndavél Vegagerðarinnar á Fjarðarheiði að innblæstri fyrir listaverk myndlistarnema.

Norðfirðingar glöddust yfir stórri höfrungavöðu sem synti um fjörðinn.

Íbúar og sveitarstjórnarmenn á Seyðisfirði og í Fjarðabyggð deildu harðlega um ferjuna Norrænu en forsvarsmenn færeysku útgerðarinnar sýndu áhuga á að flytja hana til Eskifjarðar. Engin hreyfing hefur verið í þeim málum síðan á vormánuðum.

Deilur voru líka innan bæjarstjórnar Seyðisfjarðar þar sem fulltrúi meirihluta óskaði eftir áliti á hvort bæjarfulltrúar minnihlutans hefðu brotið siðareglur. Úrskurðurinn var á þá leið að kjörnir fulltrúar ættu ekki að nota siðareglur í pólitískum slag en fleiri klögumál gengu á milli bæjarfulltrúanna, meðal annars um boð í hádegisverð með forsetanum.

Lögreglan fjarlægði matarrauðvín úr sölu í Nettó á Egilsstöðum. Fyrirtækið taldist hafa sín mál í lagi og rauðvínið fór aftur í sölu nokkrum dögum síðar.

Mánuðinum lauk á tilkynningu forsvarsmanna Vísis á að allri vinnslu á Djúpavogi yrði hætt og hún flutt til Grindavíkur að loknu sumarfríi. Starfsmönnum var boðið að flytja með starfseminni. Sveitastjórn Djúpavogs brást hart við og hóf mikla baráttu fyrir því að halda í vinnsluna. Ákvörðuninni var síðan frestað en í lok árs fór Vísir alfarið af svæðinu. Nýtt fyrirtæki mun þó verða með vinnslu þar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.