Skip to main content
Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri. Mynd: GG

Skilur að fólki þyki óþægilegt að ákvarðanir haldi ekki frá einu kjörtímabili til annars

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. nóv 2025 18:17Uppfært 11. nóv 2025 18:22

Vegamálastjóri segist hafa skilning á því að bæði almenningi og fulltrúum í sveitarstjórnum þyki óþægilegt þegar gefið sé í skyn að ekki verði staðið við þá stefnumörkun sem þegar hefur verið mörkuð. Vandasamt verður að hefja framkvæmdir við önnur jarðgöng en Fjarðarheiðargöng árið 2027. Þegar hefur verið varið um 600 milljónum króna til þeirra.

Von er á nýrri samgönguáætlun frá innviðaráðherra til Alþingis í þessum mánuði. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er talað um að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangamálum á kjörtímabilinu. Ljóst er hins vegar að eftir því sem áætlunin tefst verður ólíklegra að það takist með öðrum jarðgöngum en Fjarðarheiðargöngum, vegna þess tíma sem þarf til undirbúnings.

„Að undirbúa jarðgöng tekur 3-5 ár. Það er verið að undirbúa Fljótagöng og við erum komin vel inn í undirbúning þeirra. Ég ætla samt ekki að slá því föstu að við getum byrjað á þeim árið 2027,“ segir Bergþóra Þorkelsdóttir, vegamálastjóri.

Á gildandi samgönguáætlun eru Fjarðarheiðargöng fremst í röðinni og á eftir þeim göng áfram til Norðfjarðar um Mjóafjörð, oft kölluð Fjarðagöng. Þau voru færð aftar í drögum að samgönguáætlun og jarðgangaáætlun sem kynntar voru árið 2023. Þær áætlanir komust ekki í gegnum þingið.

Tölvuteikning af gangamunna Fjarðarheiðarganga Héraðsmegin. Mynd: Vegagerðin

Fjarðarheiðargöng svo gott sem tilbúin til útboðs

Við gerð jarðgangaáætlunarinnar voru Fjarðarheiðargöngin ekki metin þar sem ákvörðun um þau taldist liggja fyrir. Á fundi á Egilsstöðum í haust sagðist Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, hafa kallað eftir svörum austfirsks sveitarstjórnarfólks um kosti Fjarðarheiðarganga umfram Fjarðagöng. 

Bergþóra segir það hafa verið ákvörðun Alþingis að velja Fjarðarheiðargöngin, en ekki Vegagerðarinnar. Hún hafi síðan unnið eftir þeirri ákvörðun í fimm ár og göngin séu „svo gott sem tilbúin til útboðs.“ Rúmum 600 milljónum hefur verið farið í undirbúninginn. Rannsóknarkostnaður jarðganga er að jafnaði um 500 milljónir og tekur um þrjú ár.

Langtímasýn mikilvæg í jarðgangamálum

Vegna þess tíma og kostnaðar sem fari í jarðgöng hefur Vegagerðin hins vegar kallað eftir langtímasýn í jarðgangagerð í landinu. Skref í þá átt var stigið með skýrslunni sem fylgdi jarðgangaáætluninni 2023.

Hún segir Vegagerðina búa við það að Alþingi taki endanlegar ákvarðanir um stærri verkefni og skiljanlegt sé að þær stærstu séu mikið ræddar. Á sama tíma þurfi að vera hægt að treysta ákveðinni langtímasýn.

Þetta er framkvæmd upp á 55-60 milljarða. Það kemur ekki á óvart að menn velti hlutunum fyrir sér. En á móti er þetta framkvæmd sem er búin að fara nokkrum sinnum í gegnum þinglega meðferð og ég skil að það geti verið erfitt fyrir íbúa og sveitarstjórnarfólk að geta ekki treyst því að hún hafi eitthvað að segja og haldi frá einu kjörtímabili til annars.

Ég hef skilning á að aðstæðurnar eru flóknar við þessa stóru og kostnaðarsömu framkvæmd. Pólitíkin hefur allan tímann haft miklar skoðanir á henni og íbúarnir líka. Mér finnst það ekki skrýtið,“ svarar Bergþóra, aðspurð um hvort ekki hafi verið óþægilegt að ráðherra talaði óljóst um stóra framkvæmd sem í raun væri ákveðin.

Veghefill við störf á Öxi. Mynd: GG

Hægt að bjóða Öxi út ef peningurinn er til

Um aðrar framkvæmdir á Austurlandi segir Bergþóra að hönnun nýs vegar um Öxi eigi að vera lokið snemma á næsta ári og hann þá tilbúinn til útboðs ef fjármagn fæst. Hún segir hins vegar rangt að beinlínis hafi verið ætlað fjármagn í veginn á samgönguáætlun.

Það er algengur misskilningur að fjármunir séu eyrnamerktir í samgönguáætlun. Hún er fyrst og síðast forgangsröðun. Það er ekki gefið að upphæðir úr henni skili sér í fjármálaáætlun. Við höfum oft verið stödd þar að minna er í fjármálaáætlun en í samgönguáætlun. Þá höfum við notað fjármuni í samræmi við forgangsröðunina. Þar með er ekki hægt að framkvæma allt í samgönguáætlun. Þetta er eina leiðin í svona kviku umhverfi.

Samgönguáætlun er mikilvæg því hún sýnir vilja Alþingis til forgangsröðunar. Við vinnum svo eftir henni nema eitthvað stærra komi upp á.“

Lengri útgáfa viðtalsins birtist upphaflega í Austurglugganum