Skip to main content
Guðmundur Höskuldsson, formaður BRJÁN. Mynd: GG

Frumsýna og kenna á nýtt Hammond-orgel í Neskaupstað

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. nóv 2025 16:20Uppfært 06. nóv 2025 16:21

Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi (BRJÁN) hefur fest kaup á Hammond-orgeli og stendur fyrir tónleikum um helgina til að ljúka fjármögnun þess. Einn þekktasti hljómborðsleikari landsins, Þórir Baldursson, mun spila á hljóðfærið og halda námskeið á það.

Það hefur verið draumur um skeið að eignast Hammond-orgel í samfélagið. Með því getum við tekið á móti orgelmiðuðum hljómsveitum,“ segir Guðmundur Höskuldsson, formaður BRJÁN.

Hammond-orgelin þykja gefa frá sér einstakan hljóm og eru þess vegna eftirsóknarverð, þótt þau hafi ekki verið framleidd í 50 ár. Þau byggja á tónhjólum og Leslie-hátölurum. Eftir miðjan áttunda áratuginn fóru Hammond-verksmiðjurnar að færa sig yfir í rafrænan búnað sem þótti ekki jafn spennandi. Það endaði með gjaldþroti þeirra árið 1985.

Eftirlíkingar sem hljóma ekki eins

Suzuki-samsteypan keypti nafnið og hefur síðan framleitt orgel auk þess sem aðrir framleiðendur svo sem Korg og Roland hafa reynt að líkja eftir hljómi Hammond. Það hefur gengið ágætlega en ekki fullkomlega.

Þótt það séu komnar ótal eftirlíkingar þá geta þær ekki gert það sama. Ólíkt flestum rafmagnshljómborðum er hægt að spila á Hammond-orgelið með mikilli tilfinningu. Sambland fótstigsins, hátalarans og margra radda þess gera það að verkum. Þess vegna eru þau enn notuð,“ útskýrir Guðmundur.

Þess vegna er ekki hlaupið að því að komast yfir eintak í dag. Hljóðfærið sem er komið til Norðfjarðar er framleitt árið 1965 og fannst í Danmörku með aðstoð Þóris. Þetta er öndvegis orgel, nýyfirfarið, keypt beint af verkstæði og hljómar vel. Hátalarinn er frá 1972. Þetta eru vel byggð hljóðfæri og þess vegna endast þau í áratugi.“

Hljómsveitin Coney Island Babies kemur fram á tónleikunum á laugardagskvöld. Mynd: Esther Ösp

Heimamenn í sviðsljósi tónleikanna

Styrkur fékkst úr minningarsjóði Ingvars Lundbergs, fyrrum hljómborðsleikara SúEllen og frá Steininum nytjamarkaði. Tónleikar verða haldnir í Egilsbúð á laugardagskvöld klukkan 20:00 til að ljúka fjármögnuninni. Þar mun Þórir spila í hljómsveit með heimamönnunum Jóni Hilmari Kárasyni, Þorláki Ægi Ágústssyni og Jóhanni Geir Árnasyni. Söngvarar verða einnig Norðfirðingar, þau Guðmundur R. Gíslason, Jóhanna Fanney Hjálmarsdóttir og Hrafna Hanna Herbertsdóttir auk Guðmundar Hermannssonar, sem var í norðfirsku sveitinni Amon Ra.

Þá kemur fram norðfirska sveitin Coney Island Babies og Guðmundur með sólóverkefni sitt Dundur, en Þórir lék inn á plötu Guðmundar sem kom út fyrir tveimur árum.

Kenna Austfirðingum á Hammond

Í hádeginu á laugardag verður Þórir með námskeið fyrir austfirska hljómborðsleikara. „Hann er sá Íslendingur sem mest hefur notað Hammond-orgelið. Hann sýnir hvað hægt er að gera með því og hvernig.“

Guðmundur segist vita um tvö önnur Hammond-orgel á Austfjörðum, annað þeirra er á Djúpavogi og notað á Hammond-hátíðinni ár hvert, hitt á Eskifirði. Orgelin eru erfið í flutningi en Guðmundur segir allt opið í að hljóðfærið í Neskaupstað fari á milli staða til tónleikahalds.

Þótt hann verði með lögheimili sitt í Tónspili, félagsheimili BRJÁN, þá er það færanlegt. Það er 180 kg og hátalarinn 75 kg og þess vegna keyptum við flutningsbúnað með því.“

Hammond-orgelið er heiðrað árlega á samnefndri hátíð á Djúpavogi. Orgelið, sem þar er notað, kemur úr Neskaupstað. Mynd: GG