Vopnfirðingar enn sigursælir í Stóru LEGO-keppni grunnskólanna
Þrátt fyrir að minna hafi farið fyrir að keppnislið af Austurlandi í Stóru LEGO-keppni grunnskóla landsins hafi unnið til verðlauna á nýafstaðinni keppninni en oft áður fékk keppnislið Vopnafjarðarskóla þó Jafningjaverðlaun mótsins að þessu sinni.
Keppni þessi, sem fagnar 20 ára afmæli á árinu, fór fram í Háskólabíói um helgina en þar reyndu um 200 einstaklingar úr 19 grunnskólum alls með sér á sviði vísinda, tækni, nýsköpunar og almennrar lífsleikni. Þekktasta keppnisgreinin gengur jafnan út á að forrita LEGO-vélmenni til að leysa ýmsar þrautir á sérstakri keppnisbraut en þema keppninnar nú var Uppgröftur.
Aðalverðlaun keppninnar nú fóru til liðsins Berserkja úr Grunnskóla Hornafjarðar og fékk liðið LEGO-bikar, 300 þúsund krónur og þátttökurétt í alþjóðlegum LEGO-mótum fyrir vikið.
Sem fyrr segir fékk Vopnafjarðarskóli jafningjaverðlaunin nú en sá skóli hefur ítrekað áður komist á pall í keppninni og lið þeirra tók einmitt þátt í sjálfri heimsmeistarakeppninni fyrir hönd Íslands í Bandaríkjunum síðastliðið vor. Skólar á borð við Brúarásskóla og Seyðisfjarðarskóla hafa einnig átt ágætu gengi að fagna í fyrri keppnum.