Skip to main content
Klifurveggurinn sem þegar er uppsettur í Herðubreið hentar vel byrjendum en nú er safnað fyrir enn hærri og stærri vegg fyrir lengra komna. Mynd: Aðsend

Nú skal Herðubreið klifin en það á Seyðisfirði

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. nóv 2025 15:03Uppfært 06. nóv 2025 15:11

Allra hæstu upphæðina úr seinni árlegri úthlutun íþrótta- og tómstundastyrkarsjóðs fjölskylduráðs Múlaþings, sem samþykkt var í vikunni, var til verkefnis sem ber heitið Herðubreið - Klifur. Þar um að ræða klifur í menningarmiðstöðinni Herðubreið á Seyðisfirði en ekki upp drottningu austfirskra fjalla eins og fjallið tignarlega er gjarnan kallað. 

Reyndar má deila um hvort Herðubreið eða Snæfell eigi drottningartitilinn betur skilinn sé mið tekið af kynningar- og samfélagsmiðlum þar sem bæði fjöllin fá þetta viðurnefni reglulega. Það sem ekki er hægt að deila um er að nú þegar er hægt að klifra í menningarhúsinu Herðubreið og með góðum styrknum verður sú afþreying enn frekar aukin að sögn umsækjenda.

Það eru hjónakornin Ásrún Mjöll Stefánsdóttir og Jafet Bjarkar Björnsson sem fengu hæsta styrkinn úr íþrótta- og tómstundasjóðnum að þessu sinni, alls 350 þúsund krónur, en bæði hafa þau mikinn áhuga á fjallaklifri og hefur saman tekist að skapa vettvang í Seyðisfirði fyrir aðra stærstu vinsælustu klifurhátíð landsins á aðeins fáeinum árum.

Klifur fyrir alla aldurshópa

Herðubreið - Klifur stendur fyrir kaup og uppsetningu á nýstárlegum klifurvegg sem komið verður fyrir á sviði Herðubreiðar þar sem áhugasömum á öllum aldri gefst tækifæri til að prófa sig í þeirri íþróttinni án þess að eiga meiðsli á hættu.

Annar klifurveggurinn af tveimur er þegar kominn upp og þegar allnokkrir nýir einstaklingar prófað sig áfram í veggjaklifrinu. Söfnunin nú snýst um að bæta við seinni veggnum sem verður mun stærri en sá sem þegar er til staðar.

„Við erum þegar búin að setja upp einn vegg af minni gerðinni á sviðinu í Herðubreið,“ segir Jafet í samtali við Austurfrétt. „Það sem við erum að safna fyrir er annar klifurveggur af stærri og flottari gerðinni. Sá veggur sem er kominn upp kostar um eina milljón en sá sem okkur langar að bæta við kostar milli þrjár til fjórar milljónir í heildina. Báðir veggir eru lóðréttir en þeim báðum er hægt að halla vel og þannig gert þá mun brattari en ella. Þeir eru sem sagt með breytilegum halla og ég held þeir einu á landinu sem bjóða upp á slíkt. Það sem er frábært við báða er að það eru lituð ljós í hverju einasta gati og með einu appi getur fólk valið fjölda leiða til að ná að klifra upp eftir þeim byggt á færni og áhuga. Veggirnir virka því hvort sem er fyrir algjöra byrjendur og jafnvel börn og upp í flóknari leiðir fyrir lengra komna. Mig minnir að það séu allt að 40 þúsund leiðir um að velja á litla veggnum sem þegar er kominn upp og leiðafjöldinn fyrir stærri vegginn sem við erum að safna fyrir er svipaður. Fólk velur sér bara þá leið sem það ræður við og þá lýsast upp gripin á veggnum þá leið sem valin er. Þetta merkir að hver sem er, með reynslu eða ekki, getur í hvert skipti valið sér leiðir svo klifrið er aldrei eins.“

Fimm verkefni styrkt

Herðubreiðarklifrinu var úthlutað alls 325 þúsund krónum en fimm önnur íþróttatengd verkefni hlutu styrk að þessu sinni. Heiðdís Þóra Snorradóttir fékk 225 þúsund til að byggja upp skátastarf, Auður Vala Gunnarsdóttir 150 þúsund til að setja upp Zumba fyrir börn og unglinga, Dánjal Salberg 100 þúsund krónur fyrir hlaupaæfingar barna á Seyðsfirði og Ásgeir Máni Ragnarsson 200 þúsund krónur vegna Norðurlandsmóts fullorðinna í hópfimleikum sem fram fara í Finnlandi.