Helgin: Ný sýning í Skaftfelli
Ný sýning, „Grát Bleikur“ verður opnuð í Skaftfelli á Seyðisfirði í dag. Rithöfundalestin er á ferð um fjórðunginn og í Neskaupstað er tekið á móti nýju hljóðfæri en uppistand verður á Eskifirði.
Grát Bleikur er samsýning sem ögrar litnum bleikum sem kynjuðu tákni. Sýningin inniheldur verk eftir samtímalistamennina Dýrfinnu Benitu Basalan, Hélène Hulak og dragdrottninguna Gógó Starr.
„Þau takast á við tákn feðraveldisins og dægurmenningar á gagnrýninn og gáskafullan hátt. Með brengluðum og ýktum framsetningum á menningarfyrirbærum miðla listamennirnir bæði pólitískum sjónarmiðum og persónulegum frásögnum í þeim tilgangi að skapa öfluga og byltingarkennda list.
Á meðan staðalímyndir eru afbyggðar, grætur liturinn bleikur af því að staðalímyndir kynjanna hafa kennt okkur að tár séu kvenleg, en þegar liturinn grætur verður hann jafn flæðandi og kyngervið sjálft,“ segir í kynningartexta.
Árleg upplestrarferð rithöfunda um Austurland hófst í gær á Vopnafirði. Áfram verður haldið til Breiðdalsvíkur og Djúpavogs í dag, Norðfjarðar og Seyðisfjarðar á morgun og í Skriðuklaustur á sunnudag. Meðal höfunda sem lesa upp í ár eru Gunnar Helgason, Ása Þorsteinsdóttir, Ásgeir Hvítaskáld, Nína Ólafsdóttir, Óskar Þór Halldórsson og Ása Hlín Benediktsdóttir.
Tónlistarklúbburinn BRJÁN í Neskaupstað tekur á móti nýju Hammond-orgeli með tónleikum í Egilsbúð annað kvöld. Þórir Baldursson er sérstakur gestur tónleikanna.
Á sama tíma sýna þær Sóley Kristjánsdóttir og Auðbjörg Ólafsdóttir uppistand í Valhöll á Eskifirði sem kallast „Konur þurfa bara.“ Þær fjalla á gáskafullan hátt um „allt það stórkostlega, hversdagslega og fyndna sem drífur á daga miðaldra fjölskyldu- og framakvenna sem þurfa bara að láta allt ganga upp.“
Á Café Cosý á Reyðarfirði verður bingókvöld á morgun og spurningakeppni í Frystihúsinu á Breiðdalsvík en á Tehúsinu á Egilsstöðum verður í kvöld tekið á móti jólabjórnum.
Kvennalið Þróttar í blaki spilar tvo heimaleiki gegn Völsungi. Þann fyrri á morgun en þann seinni á sunnudag.