Skip to main content
Ása Þorsteinsdóttir, Nína Ólafsdóttir, Ásgeir Hvítaskáld, Óskar Þór Halldórsson, Gunnar Helgason og Ása Hlín Benediktsdóttir. Mynd: Gunnarsstofnun

Rithöfundalestin endurspeglar blómlega bókaútgáfu á Austurlandi

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. nóv 2025 16:56Uppfært 05. nóv 2025 16:58

Árleg upplestrarferð rithöfunda um Austurland fer af stað á morgun. Að þessu sinni bætist Breiðdalsvík við þannig að lesið verður upp á sex stöðum. Markmiðið er sem fyrr að kynna nýjar bækur og koma á kynnum milli austfirskra höfunda og skálda af höfuðborgarsvæðinu.


Rithöfundarnir í lestinni að þessu sinni eru: Gunnar Helgason með bókina 
„Birtingur og símabannið mikla“; Nína Ólafsdóttir með skáldsöguna Þú sem ert á jörðu“; Óskar Þór Halldórsson með rit sitt „Akureyrarveikin“; Ásgeir Hvítaskáld á Egilsstöðum með sögulegu skáldsöguna „Saklaust blóð í snjó“; Ása Þorsteinsdóttir af Héraði með ljóðabókina „Hjartað varð eftir“. Einnig verður Ása Hlín Benediktsdóttir að lesa laugardag og sunnudag úr „Söguljóði um Lagarfljótsorminn“ sem Bókstafur gaf út í sumar.

Þetta er mikilvægt menningarverkefni af tveimur ástæðum. Annars vegar til að kynna nýjar bækur og höfunda þeirra, hins vegar til að blanda saman höfundum af höfuðborgarsvæðinu við austfirska höfunda til að skapa tengslanet. Við höfum lagt meiri áherslu á það undanfarinn áratug. Það er þó nokkur útgáfa á Austurlandi í ár.

Það er ekkert sem jafnast á við að setja fimm rithöfunda saman í bíl og láta þá keyra langar leiðir,“ segir Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar sem skipuleggur ferðina.

Komið við á sex stöðum

Rithöfundalestin fer af stað á Vopnafirði annað kvöld, kemur svo við á Gamla kaupfélaginu á Breiðdalsvík seinni part föstudags áður en hún heldur áfram á Djúpavog þar sem lesið verður upp á Hótel Framtíð um kvöldið.

Á laugardag klukkan 13:00 verður sérstakur upplestur fyrir börn og ungmenni í Safnahúsinu í Neskaupstað. Þangað er von á Særúnu Hlín Laufeyjardóttur, kennara á Reyðarfirði, til að lesa úr væntanlegri bók sinni. Höfundar fullorðinsbókanna bætast svo við klukkan 14. Um kvöldið verður lesið á Seyðisfirði í Skaftfelli.

Yfirreiðinni lýkur á Skriðuklaustri á sunnudag. Þar munu fleiri austfirskir höfundar bætast við til að kynna nýjar bækur sínar.

Upplestur fyrir ungmenni endurvakinn

Skúli Björn segir mikilvægt að hafa breidd í bæði fyrirlesurum og viðkomustöðum en rithöfundalestin hefur ekki áður stoppað á Breiðdalvík. Upplesturinn fyrir ungmennin í Neskaupstað er endurvakinn.

„Við stöndum í þeirri trú að það sé mikilvægt að koma víða við og vonum að það sýni sig í aðsókninni. Við treystum á færð og veður til að allt gangi upp en það hefur aðeins einu sinni á um 30 árum þurft að slá þetta af vegna veðurs.“