„Vatnajökulsþjóðgarður er byggðaþróunarverkefni“
Agnes Brá Birgisdóttir, þjóðgarðsvörður á austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs frá stofnun hans 2008, lét nýlega af störfum. Hún segir þjóðgarðinn snúast um að vernda náttúru og fræða en líka að byggja upp atvinnu og samfélag. Stór hluti starfsins hafi falist í að finna samstöðu á milli ólíkra sjónarmiða um nýtingu og vernd.
„Ég var síðust af upprunalegu þjóðgarðsvörðunum, hálfgerð risaeðla að verða,“ segir Agnes Brá. Hún var 33 ára þegar hún hóf störf, yngst þjóðgarðsvarðanna. Hún er lærður skógfræðingur frá Noregi og vann sem ráðunautur hjá Héraðs- og Austurlandsskógum áður en hún fór í þjóðgarðinn.
Bakgrunnur Agnes Brár sem skógfræðings nýttist henni vel í starfi þjóðgarðsvarðar. „Þegar ég las starfslýsinguna þá fannst mér hún vera eins og hjá skógarverði, fyrir utan skóginn. Það var til dæmis kennt mikið um veiðar og nýtingu í náminu mínu.“
Hún kemur úr skóla landnýtingar með áherslu á sjálfbærni og hefur þá sýn að náttúruvernd snúist um samspil þriggja þátta: „Sótt er að öllu landi og auðlindum jarðar. Verkefnið sem við stöndum öll frammi fyrir er að nýta jörðina á sjálfbæran hátt, sem byggir á þremur stoðum: náttúruvernd, efnahag og samfélagi. Til að vinna að slíku markmiði er nauðsynlegt að ólíkir hagsmunir séu ræddir og fjárhagslegar ákvarðanir teknar sem tryggja að ekki sé gengið á náttúru og samfélög,“ segir hún.
Einstök náttúra austursvæðisins
Vatnajökulsþjóðgarður varð formlega til sem stofnun í júní 2008 og í ágúst kom Agnes til starfa. Austursvæðið sem hún sá um samanstendur af fjölbreyttum svæðum eins og öræfunum í kringum Snæfell, Krepputungu, Kverkfjöllum og Hvannalindum.
„Snæfellsöræfin eru gróin háslétta með þessu tignarlega fjalli, Snæfelli, útverði hálendisins í austri. Það er kennileiti okkar því við sjáum það svo víða að, höfum haft það fyrir augum alla tíð. Þess vegna tölum við um fjallið í fólkinu. Af því það sést líka um allt Austurland.
Umhverfi þess er magnað með þessum gróðri, votlendi, fuglum, hreindýrum og öræfaanda. Aðgengi að því er gott, með vegum, slóðum og gönguleiðum og vetrarferðamennska er að aukast. Þar í nágrenninu eru Eyjabakkar, Ramsar-svæði sem er síkvikt með breytingum á jöklum,“ lýsir Agnes Brá.
Hún segir Krepputungu minna þekkta, en hún sé „gróðurlítil, eins og opin jarðfræðibók, ofboðslega fallegir litir. Hún er dulmögnuð, ég segi stundum að ef fólk trúir ekki á drauga, álfa eða tröll, þá fær það trúna þarna.“
Hvannalindir og Kverkfjöll eru einnig einstök svæði, þau síðarnefndu með hverasvæði sem er einkar sérstakt. „Þarna eru líka svæði með þeim afskekktustu á landinu, eins og undir Brúarjökli og Skarphéðinstindi, hæsta snjólausa tindi landsins. Það eru kraftar í þessu svæði, mystík, víðátta og það lætur engan ósnortinn.“
Heimsminjaskrá UNESCO: Heiður og ábyrgð
Þjóðgarðurinn hefur verið stækkaður nokkrum sinnum og er í dag sá næst stærsti í Evrópu. Stór hluti hans, þar á meðal austursvæðið, var tekinn inn á heimsminjaskrá UNESCO árið 2019.
„Við vissum að við værum með einstakt svæði en að fá alþjóðlega viðurkenningu á því er annað. Það er heiður en því fylgir líka ábyrgð og skyldur. Það tryggir betur verndun svæðanna inn í framtíðina og veitir okkur aðgang að alþjóðlegu samstarfi og þekkingu en stjórnvöld þurfa líka að tryggja fjármögnun til að sinna svæðinu,“ segir Agnes Brá.
Svæðisráð lykilinn að samtali við nærsamfélagið
Agnes Brá leggur mikla áherslu á mikilvægi svæðisráðanna í þróun þjóðgarðsins. Í fyrstu var erfitt að starfa þegar stjórnunar- og verndaráætlun var ekki til staðar: „Ég byrjaði á skrifstofu með hvítum veggjum og svartri tölvu. Síðan var mér sendur jeppi.“
Hún segir að svæðisráðið, skipað fulltrúum sveitarfélaga og ólíkra hagsmunaaðila, hafi verið hennar bakhjarl. „Í svæðisráðinu hlustaði maður á ólík sjónarmið, og ákvarðanir voru teknar eftir samráð. Þessi dreifstýring er nútíminn í náttúruvernd. Að ákvarðanir um landsvæði séu teknar nærri þeim sem þekkja, virða og nota þau,“ segir Agnes.
Byggðaþróunarverkefni með samfélagslegt gildi
Þjóðgarðurinn var nýorðinn til þegar hrunið skall á, en uppbygging Snæfellsstofu hélt áfram. „Án þess að hafa neitt formlega fyrir mér í því þá held ég að þetta hús hafi spornað gegn því að nokkrar fjölskyldur flyttu til Noregs,“ segir Agnes.
„Fyrir mér er Vatnajökulsþjóðgarður líka byggðaþróunarverkefni. Við eigum rannsóknir um að hver króna sem sett er í þjóðgarða skili 13 krónum til baka,“ bendir Agnes á. Þjóðgarðinum fylgja fjögur heilsársstörf og verðmæti í formi styrkja úr styrkvegasjóði til vegabóta, viðgerðir á skálum og kaup á vörum og þjónustu í héraðinu.
Spurningin er hins vegar hvort samfélagið á Austurlandi geri sér grein fyrir þeim verðmætum sem fylgja starfseminni og styðji við hana. Agnes segir að kannanir hafi í byrjun sýnt að Austfirðingar væru hlutlausir gagnvart þjóðgarðinum, á meðan íbúar á svæðum gömlu þjóðgarðanna, væru neikvæðir. Þetta hafi hins vegar breyst en tilfinningin sé ákveðið áhugaleysi almennra Austfirðinga.
Reynt hafi verið að bregðast við því, meðal annars með reglulegum skólaheimsóknum. „Mér finnst að við eigum að gefa austfirskum börnum tækifæri á að kynnast hálendinu okkar því það ferðast ekki allar fjölskyldur þangað. Ég hvet heimamenn til að kynna sér og eigna sér þjóðgarðinn. Hann er hér fyrir ykkur ekki bara fyrir túrista.“ Agnes telur þær eiga sinn þátt í að nær allir landverðir austursvæðis séu uppaldir í nágrenninu, á meðan í byrjun hafi þeir verið sóttir annað.
Agnes gerir þó greinarmun á áliti almennings og sveitarstjórnarfólks. Þótt almenningur hafi jafnvel verið áhugalaus um þjóðgarðinn, sérstaklega í byrjun, þá hafi verið mikill pólitískur vilji fyrir honum. „Það var mikill pólitískur vilji fyrir Vatnajökulsþjóðgarði. Þetta voru nýir tímar og nýjung í náttúruvernd. Hann er stærsta náttúruverndarverkefni Íslandssögunnar.“
Náttúruvernd og náttúrunýting sæst í samtali
Agnes bendir á að á milli verndunar og nýtingar þurfi að finna jafnvægi. „Við erum að taka þátt í að vernda land fyrir komandi kynslóðir, það er göfugt í eðli sínu. Á sama tíma verður breyting á hefð og þá sýnist sitt hverjum.“
Hún leggur áherslu á að frá upphafi hafi verið ljóst að ekki stæði til að banna hefðbundna landnýtingu eða veiðar á stórum svæðum þjóðgarðsins. „Sjálfbærni er lykilhugtak landnýtingar,“ segir hún og bætir við að góð samskipti við veiðimenn og aðra hefðbundna landnotendur hafi verið forgangsatriði í rekstri garðsins. „Hreindýraleiðsögumenn hafa veitt okkur mikla þekkingu og eru okkar helstu gestir.“
Framtíðarsýn með Náttúruverndarstofnun
Um síðustu áramót varð breyting á umgjörð Vatnajökulsþjóðgarðs þegar Náttúruverndarstofnun var stofnuð og þjóðgarðurinn rann inn í hana. Agnes vonast til að sameiningin efli náttúruvernd í landinu til framtíðar.
„Sameiningin tekur tíma en það ætti að hjálpa að við erum sammála um verkefnin. Það er ekki tekist á um náttúruvernd innan stofnunarinnar. Til lengri tíma held ég að þetta efli náttúruvernd í landinu.
Hvað Vatnajökulsþjóðgarð varðar þá held ég að hann verði flaggskip þessarar nýju stofnunar. Ekki bara er náttúra hans einstök heldur líka stjórnkerfi hans. Stundum hefur það reynt á en í heildina hefur það þróast í rétta átt.“
Lengri útgáfa viðtalsins birtist áður í Austurglugganum.