Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöng á dagskrá um 2040?
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 16. jún 2023 10:05 • Uppfært 16. jún 2023 10:18
Úttekt Vegagerðarinnar, sem er grunnurinn að drögum að jarðgangaáætlun, gerir ráð fyrir að næstu jarðgöng á eftir Fjarðarheiðargöngum verði frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar og Norðfjarðar. Þau gætu verið tilbúin 2043. Önnur göng á Austfjörðum eru ekki talin sérstaklega brýn.
Þetta kemur í tillögum að forgangsröðun jarðgangakosta sem starfshópur innan Vegagerðarinnar hefur unnið síðustu mánuði en var birt á vef stofnunarinnar í gær. Starfshópur, sem Freyr Pálsson hönnunarstjóri jarðganga hjá Vegagerðinni hefur leitt, var skipaður af forstjóra stofnunarinnar í janúar.
Hópurinn hefur síðan forgangsraðað jarðgangakostum á Íslandi og á því byggir jarðgangaáætlun til 30 ára sem innviðaráðherra kynnti samhliða drögum að samgönguáætlun 2024-38 á þriðjudag. Vinnan byggir meðal annars á skýrslu sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) vann fyrir Vegagerðina í fyrra þar sem fleiri en 20 gangakostir voru greindir og arðsemi þeirra metin.
Rétt er að taka fram að í skýrslunni er ekki fjallað um Fjarðarheiðargöng því þau samkvæmt áætlununum, eru næst á dagskrá. Í tímatöflu eru þau merkt í undirbúningi á næsta ári og að framkvæmdir hefjist 2025 en ljúki 2031. Þá segir að aðrir kostir en þau séu stutt á veg komnir í hönnun.
Seyðisfjarðargöng og Mjóafjarðargöng
Takmörkuð umfjöllun var í skýrslunni í fyrra um göng áfram frá Seyðisfirði til Mjóafjarðar, Seyðisfjarðargöng og áfram frá Mjóafirði til Norðfjarðar, Mjóafjarðargöng þar sem þau voru þá næst í röðinni á samgönguáætlun.
Um þau segir nú að þau myndi gerbreyta samgöngumynstri, stytta vegalengdir og auka umferðaröryggi sem og færð milli staða. Þá hefðu þau mjög jákvæð áhrif á byggðaþróun og stækka atvinnu- og þjónustusvæði á Mið-Austurlandi. Þau myndu stytta leiðir milli þéttbýlisstaða um allt að 64 km auk þess sem enginn staður yrði botnlangi.
En þótt göngin yrðu mikilvægur hlekkur í láglendisleið milli helstu byggðarlaga á Austurlandi þá eru þau ekki talin mjög brýn, gegn því að búið væri að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar með Fjarðarheiðargöngum.
Þar sem göngin eru meðal þeirra tíu sem komast á jarðgangaáætlunina eru þau tímasett. Undirbúningur er ætlaður 2035-38 og framkvæmdir 2039-43. Gengið er út frá því að unnið yrði í báðum göngunum í einu. Seyðisfjarðargöngin yrðu 5,4 km og Mjóafjarðargöngin 7 km.
Til viðbótar við tíu jarðgöng á framkvæmdaáætlun þá er mælt með að fern göng, þar af þrenn á Austurlandi, verði tekin til nánari skoðunar. Þeim er ekki raðað í röð og eru ekki á tímaáætluninni.
Göng undir Breiðdalsheiði og Berufjarðarskarð
Í útreikningum RHA í fyrra voru 3,9 km löng göng undir Breiðdalsheiði og 5,1 km göng undir Berufjarðarskarð talin þau arðsömustu. Málið er hins vegar að þeir útreikningar byggðu á að ekki yrði gerður nýr vegur yfir Öxi en með honum hrapar arðsemin. Í umsögn Vegagerðarinnar segir að göngin hefðu töluverð jákvæð áhrif á hversu greiðfært er milli staða sem og einhver jákvæð áhrif á umferðaröryggi. Þau myndu stytta Hringvegin um 12 km en leiðin milli Djúpavogs og Egilsstaða yrði 3 km lengri en yfir Öxi.
Göngin eru því talið lítið brýn en þó þurfi að koma reynsla á nýjan Axarveg og hvort hann útiloki þennan kost. Mælt er með að jarðgangaáætlunin verði endurskoðuð á 10-15 ára fresti og þessi kostur verði nánar skoðaður við seinni endurskoðun. Tekið er fram að hægt sé að bera göngin saman við göng undir Berufjörð sem stytta myndu Hringveginn um 30 km.
Hellisheiði eystri
Göng undir Hellisheiði eystri eru einnig metin lítið brýn og mælt með að þau verði skoðuð við seinni endurskoðun jarðgangaáætlunar. Þau yrðu 6,5 km löng og myndu stytta leiðina milli Egilsstaða og Vopnafjarðar um 8,5 km miðað við núverandi veg yfir Hellisheiði, sem er sumarvegur. Styttingin miðað við Vopnafjarðarheiði, sem haldið er opinni allt árið, yrði 46 km. Búist er við einhverjum jákvæðum áhrifum á umferðaröryggi, byggðaþróun og hversu greiðfært yrði.
Lónsheiði
Þriðju austfirsku göngin á þessum lista eru undir Lónsheiði. Göngin yrðu 6,1 km og myndu stytta Hringveginn um 12,4 km. Einhver jákvæð áhrif yrðu á öryggi, byggðaþróun og færð. Þau kæmu í stað vegarins um Hvalnes- og Þvottárskriður þar sem aðallega grjóthrun en þó einnig óveður hafa valdið vandræðum. Fram kemur að vegurinn sé lokaður í að meðaltali 3,5 skipti og alls 22 klukkutíma á ári.
Síðustu ár hefur verið settur upp um 1 km af stálþiljum í skriðunum til að koma í veg fyrir grjóthrun. Þau hafa reynst vel þótt reynslan sé enn takmörkuð. Miðað við að þau virki vel og áfram verði unnið að sambærilegum úrbótum þá eru göngin ekki talin brýn. Hins vegar verði ekki hægt að tryggja öryggi í skriðunum þá sé ekki annar kostur en grafa göngin. Því verði þau tekin til nánari skoðunar við aðra endurskoðun áætlunarinnar.
Allt háð nýrri fjármögnun
Samkvæmt áætluninni á stöðugt að vera unnið að jarðgangagreftri á næstu árum. Það þýðir að grafnir yrðu 2,3-2,7 km af göngum á ári samanborið við 2 km að meðaltali árin 1988-2020. Hlé hefur verið á jarðgangaframkvæmdum frá árinu 2020 þegar Dýrafjarðargöng opnuðu. Í samgönguáætlun er sá fyrirvari settur við jarðgangaáætlunina að öll framvinda hennar sé háð því að hægt verði að finna nýja tekjuleið, það er gjaldtöku fyrir umferð. Að störfum er sérstök verkefnastofa innviðaráðuneytis og fjármálaráðuneytis þar um. Meðal þess sem hún skoðar er sérstakt félag á vegum ríkisins sem halda myndi utan um jarðgöngin.
Ekki er í þessari nýjustu skýrslu Vegagerðarinnar, frekar en þeirri sem RHA vann fyrir ári, minnst á T-göng á Austurlandi, það er að í stað Fjarðarheiðarganga verði göng frá Mjóafirði tenging við Fljótsdalshérað. Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöngin yrðu hluti af þeim.