Skip to main content
Gullverðlaun fyrir Landann og 92 stig af 100 alls fyrir Eikarlandann á stórri áfengishátíð vestanhafs. Mynd KHB

Enn sankar brugghús KHB að sér alþjóðlegum verðlaunum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. nóv 2025 14:29Uppfært 10. nóv 2025 14:34

Það hefði einhvern tímann þótt saga til næsta bæjar að íslenskur landi fengi fyrstu verðlaun í stórri alþjóðlegri áfengis- og vínhátíð. Það varð raunin með Landa KHB brugghúss á Borgarfirði eystra fyrir stuttu aðeins þremur mánuðum eftir að hafa tekið gullið á World Beer Awards fyrir súrbjórinn Stúlku.

Löngum var það svo að landi var helst bruggaður hérlendis í skúmaskotum og þaðan af miður góðum stöðum og oftast nær með miður góðum árangri. Nú er öldin önnur. Landi KHB fékk gullverðlaunin á Las Vegas Global Spirits Awards fyrir skömmu og önnur landategund brugghússins, Eikarlandi, fékk toppeinkunn að auki þó ekki fengi sá verðlaun. 

Vilja koma á útflutningi

Þetta enn ein verðlaunin sem KHB fær á stórum hátíðum erlendis en hugmyndin með þátttöku í slíkum keppnum er að reyna að koma á útflutningi að sögn Helga Sigurðssonar eiganda KHB.

„Við sendum í keppnina bæði Landann okkar og Eikarlandann. Munurinn liggur í að Eikarlandinn fær að hvíla í eikartunnum um eins árs skeið og sá fékk mjög flotta einkunn hjá dómurunum þó að þessi hefðbundni hefði unnið gullið í landaflokknum sem vestanhafs er auðvitað kallað moonshine. Ég fékk þá hugmynd að senda í þessa keppni þar sem ég veitti því athygli að þeir bandarísku ferðamenn sem komu hingað í sumar með skemmtiferðaskipunum voru svo hrifnir af landanum. Svo mér lék forvitni á að vita hvernig myndi ganga í stórri keppni og það gekk svona frábærlega.“

Helgi segir að draumurinn sé að geta hafið útflutning á vörum brugghússins og þátttaka og gott gengi í slíkum keppnum geti skipt höfuðmáli í því sambandi.

„Ég heyrði einmitt af því að einn dómarinn var yfir sig ánægður að landinn okkar gaf honum ekki hreinan hroll eins og landi afa hans á sínum tíma. Í grunninn er landinn einmitt bandarískt fyrirbæri og þar í landi er þetta moonshine beinlínis ákveðið vörumerki og það mikil menning í kringum þetta þar. Við erum nú að skoða það að koma vörum okkar í verslanir í Bandaríkjunum og verðlaun sem þessi hjálpa okkur að komast með fótinn innfyrir dyrnar því nóg er samkeppnin á þessum markaði.“