Skip to main content
Húsnæðið að Austurvegi 1 var lengi vel í nokkurri niðurníðslu en þeirri þróun verið snúið við og húsið fengið nýtt hlutverk. Mynd: Aðsend

Einu merkasta húsi Reyðarfjarðar breytt í lúxusíbúðir

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. nóv 2025 10:40Uppfært 07. nóv 2025 10:48

Það sem fyrir þremur árum síðan þótti ekki lengur viðunandi sem félagsmiðstöð ungmenna hefur nú breyst í lúxusíbúðir á besta stað á Reyðarfirði en heimamaður hefur staðið í því um tveggja ára skeið að gera upp húsnæðið að Austurvegi 1.

Þar var áður félagsmiðstöðin Zveskjan og á árunum þar áður var húsið nýtt í marvísleg mismunandi hlutverk. Húsið á sér langa sögu því það var upphaflega byggt sem skólahúsnæði og arkitektinn enginn annar en Rögnvaldur Ólafsson sem oft hefur verið kallaður fyrsti arkitekt Íslendinga. Það var byggt árið 1912.

Það er heimamaðurinn Egill Jónsson sem staðið hefur í endurbótunum síðastliðin tvö ár en eignin var sett á sölu þegar starfsemi Zveskjunnar var flutt annað síðla árs 2022. Nú sér fyrir endann á framkvæmdum að hans sögn en þar eru alls þrjár íbúðir.

„Eina íbúðina er búið að selja og við erum nú að ljúka við neðri hæðina í stóra húsinu og það allt saman á lokametrunum. Við höfum engu breytt utandyra enda er þetta glæsilegt hús í grunninn. Það var alltaf ætlunin að gera hér fallegar íbúðir enda er staðsetningin frábær og ég vil meina á besta staðnum í bænum. Það er búið að gera umhverfið allt fallegt og snyrtilegt og það er búið að gera upp mörg húsin hér í kring svo þetta svæði er allt að verða mjög flott. Verkið sjálft reyndar tekið meiri tíma en ég átti von en það er nú mér sjálfum að kenna því ég vildi vanda til verka og það kostar einfaldlega meiri tíma.“