„Mjög góðar fréttir fyrir Norðausturland“
Oddviti hreppsnefndar Vopnafjarðar segir áform um uppbyggingu dreifikerfis milli Vopnafjarðar, Þórshafnar og Kópaskers, sem kynnt voru í gær, vera framfaraskref fyrir svæðið allt. Hann óskar nágrönnunum á Þórshöfn til hamingju.
Íslenska ríkið, Landsnet og Rarik gengu í gær frá viljayfirlýsingu um uppbyggingu dreifikerfis raforku á Norðausturlandi. Fyrsti áfanginn er 33 kV strengur frá Vopnafirði til Þórshafnar. Engin tenging er á milli staðanna í dag og fær Þórshöfn því aðeins rafmagn eftir 33 kV línu frá Kópaskeri.
Þórshöfn verið svelt
Framkvæmdir eiga að hefjast strax á næsta ári þannig að strengurinn komist í gagnið árið 2028. Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti Vopnafjarðarhrepps, segir að þótt línan þýði að bæði Þórshöfn og Vopnafjörður fái loks tengingu í tvær áttir sé hún mikilvægari fyrir nágrannana.
„Við erum þegar með töluverðan flutning til Vopnafjarðar og eftir að línan yfir Hellisheiði var lögð í jörðu þá er komið það gott afhendingaröryggi hér að rafmagnið hefur ekki farið af síðan vegna veðurs.
Þetta breytir hins vegar miklu fyrir Þórshöfn, sem ég leyfi mér að segja að hafi verið svelt af rafmagni þar í allt of mörg ár. Þess vegna eru þetta mjög góðar fréttir.“
Axel segir hins vegar að svæðið allt muni njóta góðs af þessu. „Ég vona að þetta styðji við uppbyggingu þar. Ef Langanesbyggð er öflugt samfélag með sterk fyrirtæki þá er það líka gott fyrir Vopnafjörð, því þessi samfélög deila iðnaðarmönnum og annarri þjónustu.“
Stór lína á tíu ára áætlun
Yfirlýsingin frá í gær gerir líka ráð fyrir að hafinn verði undirbúningur að 132 kV loftlínu frá Kópaskeri til Þórshafnar og þaðan áfram til Vopnafjarðar. Miðað er við að hún komist inn á tíu ára framkvæmdaáætlun Landsnets.
„Loksins eru menn að girða sig í brók og ganga í þessi verk sem breyta miklu fyrir okkar landshluta. Þetta er allt mjög spennandi en ég set þann fyrirvara að þetta á eftir að gerast. En ég vona að af þessu verði.“