Skip to main content
Flugvélaeldsneyti er dýrara á landsbyggðinni, meðal annars því það er allt flutt inn til Helguvíkur. Mynd: GG

Alþingi samþykkir að gera skýrslu um ódýrara flugvélaeldsneyti á Egilsstaðaflugvelli

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. nóv 2025 11:04Uppfært 07. nóv 2025 11:04

Alþingi hefur samþykkt beiðni þingmanna úr fimm flokkum að gerð verið skýrsla um aðgerðir til að lækka kostnað á flugvélaeldsneyti á flugvöllunum á Egilsstöðum og Akureyri. Ríkisstjórnin skoðar líka hvernig hægt sé að nýta fjárfestingar á flugvöllum bæði til varnarmála og fyrir almenna borgara.

Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, var fyrsti flutningsmaður beiðninnar en meðflutningsmenn voru aðrir þingmenn Framsóknar sem og þingmenn úr Norðausturkjördæmi, Eydís Ásbjörnsdóttur frá Samfylkingu, Þorgrímur Sigmundsson úr Miðflokki, Ingvar Þóroddsson frá Viðreisn og Sjálfstæðismennirnir Jens Garðar Helgason og Njáll Trausti Friðbertsson.

Skýrslunni er ætlað að fjalla um aðstöðumun flugvalla með tilliti til kostnaðar eldsneytisins og afgreiðslu þess, úttekt á aðgerðum til að jafna kostnaðinn og greining á hvað þær kosta til að meta hver sé hagkvæmust og meta fýsileika þess að tryggja birgðastöð flugvélaeldsneytis á Akureyri og Egilsstöðum.

Ingibjörg Isaksen var fyrsti flutningsmaður skýrslubeiðninnar. Mynd: Framsóknarflokkurinn

Allt flutt inn til Helguvíkur

Í greinargerð segir að allt flugvélaeldsneyti sé flutt inn til Helguvíkur og við Keflavíkurflugvöll sé samkeppni um sölu þess. Þar með er eldsneytið ódýrast þar. Á Akureyri og Egilsstöðum er aðeins einn þjónustuaðili og verðið töluvert hærra.

Vísað er til þess að sérfræðingar hafi bent á að jafna þurfi kostnaðinn en álitamál sé hvernig farið sé að því. Einnig er minnst á hugmyndir um að byggja eldsneytistank til uppskipunar og dreifikerfi frá honum við Akureyri. Ennfremur er velt upp hvort fýsilegt sé að stofna óhagnaðardrifið afgreiðslufyrirtæki sem sjái um lendingar og brottfarir á völlunum tveimur.

Þegar Ingibjörg og Njáll Trausti fylgdu beiðninni eftir í umræðum á Alþingi komu þau bæði inn á mikilvægi þess að geyma flugvélaeldsneyti á fleiri en einum stað í landinu. Njáll Trausti sagði meðal annars að staðan hefði verið rædd á vettvangi NATO. Eins þyrfti að fara yfir hvaða birgðir séu til landinu hverju sinni ef flutningsleiðir skyldu lokast.

Njáll Trausti Friðbertsson var formaður Íslandsdeildar NATO frá 2017-2024. Mynd: Alþingi

Uppbygging flugvalla getur verið hluti af framlagi til varnarmála

Njáll Trausti lagði einnig nýverið fram fyrirspurn til Eyjólfs Ármannssonar, innviðaráðherra, um stefnu í uppbyggingu flugvalla með tilliti til varna. Í svarinu er vísað til þess að varnarmál séu á forræði utanríkisráðherra en samkvæmt tillögu að síðustu samgönguáætlun sé gert ráð fyrir byggingu akbrautar við Egilsstaðaflugvöll og aðflugsljósa þar, á Akureyri og í Reykjavík. Þetta séu allt framkvæmdir sem einnig nýtist við varnir.

Ráðherra segir að uppbygging flugvalla væri vel verið hluti af því 1,5% landsframleiðslu sem ætlað er að verja til uppbyggingar innviða vegna öryggis- og varnarmála á ári í framtíðinni. Aukin afkasta á millilandaflugvöllum sé eitt af því sem komi til greina. Kostur sé ef framkvæmir nýtast bæði borgurum og til varna.