Skip to main content
Hitinn náði 21 stigi dag einn í síðasta mánuði í Neskaupstað sem var ekki langt undir hitastiginu á Kanarí á þeim tíma.

Yfir 20 stig á nokkrum stöðum Austurlands í liðnum mánuði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. nóv 2025 11:31Uppfært 10. nóv 2025 11:37

Veðurfarslega var októbermánuður á Austurlandi tvískiptur mjög samkvæmt samantekt Veðurstofu Íslands. Þó kalt væri síðari hluta mánaðarins með töluverðum snjó að auki mældust allra hæstu hitatölur mánaðarins á nokkrum stöðum austanlands líka.

Hæsti hiti októbermánaðar reyndist 21,2 stig í Bakkagerði þann 12. þess mánaðar sem er hitamet í þeim mánuði en þó með þeim fyrirvara að hitamælingar þar hafa aðeins staðið yfir um átta ára skeið.

Hitastigið náði einnig yfir 20 stigin á þremur veðurstöðvum á Austfjörðum. Mælirinn fór í 21 stig í Neskaupstað, 20,8 stig á Seyðisfirði og 20.5 stig á Skjaldþingsstöðum. Á Dalatanga fór hann í 18,5 stig og bæði Eskifjörður og Egilsstaðir voru ekki langt undan með 18 stig sem og 17,5 stig sem hæsti mánaðarhiti á Kollaleiru í Reyðarfirði.

Hæsta meðalhitastig á láglendi á Austurlandi heilt yfir reyndist 5,39 stig á Vattarnesi og 5,35 á Dalatanga. Öllu kaldara var að meðaltali á Möðrudal, Grímsstöðum á Fjöllum, Brú á Jökuldal og á Hallormsstaðahálsi en meðalhitastigið á þessum stöðum náði ekki 1 stigi.

Engu að síður hefur hitastig í október aldrei áður mælst hærra í sjálfvirkum stöðum Veðurstofunnar í Möðrudal, Grímsstöðum á Fjöllum, Kambanesi, Hallormsstaðahálsi og Upptyppingum. Þetta einnig hæsta hitagildi sem sjálfvirk stöð hefur mælt í október á Seyðisfirði en meðan veðurstöðin þar var mönnuð á sínum tíma fór hitinn eitt skiptið í 22 stig í þeim firði svo ekki er um hitamet að ræða þar.