Skip to main content
Fulltrúar Rarik, Landsnets og Langanesbyggðar með ráðherra í dag. Mynd: URN

Byrjað strax á nýrri línu sem tryggir hringtengingu Vopnafjarðar og Þórshafnar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 06. nóv 2025 17:06Uppfært 06. nóv 2025 17:07

Framkvæmdir hefjast strax á næsta ári við lagningu raflínu milli Vopnafjarðar og Þórshafnar. Báðir staðir fá þar með rafmagn úr tveimur áttum í stað einnar í dag. Tengingin verður styrkt síðar með öflugri línu sem lögð verður frá Vopnafirði til Kópaskers um Þórshöfn.

Þetta er innihald viljayfirlýsingar sem undirrituð var á Þórshöfn í dag milli Landsnets, Rarik og íslenska ríkisins. Ríkið mun styðja við fjárfestingagetu fyrirtækjanna strax á næsta ári um 2,2 milljarða króna.

Samkomulagið felur í sér að Rarik mun strax hefjast handa við að styrkja afhendingu raforku á Þórshöfn með lagningu 33 kV jarðstrengs milli Vopnafjarðar og Þórshafnar. Landsnet mun á sama tíma hraða uppbyggingu nýs tengivirkis á Bakka, til að auðvelda tvítengingu Húsavíkur í gegnum Bakka og samhliða því opna á mögulega starfsemi nýrra stórnotenda á iðnaðarsvæðinu. Gert er ráð fyrir að báðum verkefnum ljúki ekki síðar en árið 2028.

Ný lína milli Kópaskers og Vopnafjarðar mun styrkja atvinnustarfsemi þar. Mynd: GG

Ný lína milli Kópaskers og Vopnafjarðar

Landsnet hefur jafnframt skuldbundið sig til að byggja 132 kV loftlínu milli Kópaskers og Vopnafjarðar með viðkomu í Þórshöfn. Framkvæmdin verður sett inn á kerfisáætlun fyrirtækisins og undirbúningur fer strax af stað. Það á að þýða að línan geti orðið að veruleika á næstu tíu árum.

Stjórnvöld munu leitast við að skapa forsendur til þess að flýta megi framkvæmdinni, svo sem með því að liðka fyrir frekari orkuvinnslu á svæðinu, og Landsnet hyggst vinna með stjórnvöldum að því markmiði.

Í dag hefur Þórshöfn aðeins eina tengingu, 33kV streng frá Kópaskeri. Á móti hefur Vopnafjörður aðeins eina tengingu, 66 kV línu yfir Hellisheiði að Lagarfossvirkjun. Takmörkuð afhendingargeta á rafmagni hefur hamlað atvinnulífi á stöðunum og á mestu álagstímunum hafa díselvélar knúið fiskimjölsverksmiðjur þar.

Hamlað atvinnuuppbyggingu á svæðinu

Ákvörðunin á sér töluverðan aðdraganda. Landsnet og íslenska ríkið hafa lengi stefnt á uppbyggingu raforkukerfisins þannig að allir þéttbýlisstaðir landsins fengju rafmagn úr tveimur áttum. Vorið 2023 voru kynntar hugmyndir að tengingum á málþingi um atvinnu- og byggðamál á Þórshöfn. Kortlagning á atvinnumálum á Norðurlandi í kjölfar rekstrarstöðvunar PCC á Bakka í sumar ýtti enn frekar á viðbrögð.

Á Norðausturlandi hefur verið ágreiningur milli Rarik og Landsnets um hver eigi að leggja og borga fyrir línurnar. Rarik sér um tengingar út um landið og hefur af því tekjur frá notendum sínum, sem flestir eru á landsbyggðinni. Landsnet sér hins vegar um meginlínur og hefur tekjur af þeim sem þýðir að kostnaður af framkvæmdum þess deilist á alla landsmenn.

Í tilkynningu umhverfis, orku- og loftlagsráðuneytisins um viljayfirlýsinguna er ekki tekið fram hver kostnaðurinn er við framkvæmdirnar. Miðað við forsendur úr nýrri skýrslu, sem gerð var fyrir Rarik, má áætla að loftlínan frá Kópaskeri til Vopnafjarðar kosti 14 milljarða króna. Sá kostnaður hefði lent á tiltölulega fáum notendum og þar með hækkað raforkureikninga þeirra verulega, hefði Rarik eitt átt að standa að framkvæmdinni. 

Framlag ríkisins heggur á hnútinn

Þetta endurspeglast í orðum Magnúsar Þórs Ásmundssonar, forstjóra Rarik, við undirritunina í dag: „Við erum þakklát umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu fyrir að stíga hér inn. Framlagið frá ríkinu til þessa verkefnis skiptir miklu máli og gerir okkur kleift að fara í þessa viðamiklu framkvæmd. Málið hefur átt sér langan aðdraganda og við fögnum því að stjórnvöld sjái og skilji þörfina fyrir uppbyggingu raforkukerfisins. Það er líka gleðiefni að Landsnet hyggist vinna með stjórnvöldum að því að flýta fyrir framkvæmdum við tvítengingu þéttbýlisstaða á þessu svæði.

Okkur þykir alltaf vont að geta ekki mætt þörfum okkar viðskiptavina. Velmegun og tækifæri hafa ávallt fylgt rafvæðingu byggða og það er hagur allrar þjóðarinnar að íbúar og fyrirtæki á Norðausturlandi njóti sömu tækifæra til búsetu og verðmætasköpunar og aðrir íbúar landsins.

Greining Verkís staðfesti að til lengri tíma er nauðsynlegt að koma á 132 kV hringtengingu frá flutningskerfi Landsnets til að tryggja afhendingaröryggi og tækifæri til framtíðar. Með þeim aðgerðum sem Rarik getur ráðist í núna náum við að mæta brýnustu þörfinni fyrir aukna afhendingargetu á Þórshöfn. Jafnframt höfum við verið í uppbyggingu á Vopnafirði og höfum tvöfaldað spennaafl okkar þar en sú stækkun, auk stærri tengingar frá flutningskerfinu, er forsenda þess að við náum að afhenda rafmagn um nýjan 33 kV streng til Þórshafnar.“

Fjölmennt var við undirritunina á Þórshöfn í dag. Mynd URN

Íhlutun ríkisins í nafni byggðaþróunar

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði yfirlýsinguna fyrir hönd ríkisins. „Loksins höggvum við á raforkuhnútinn á Norðausturlandi. Samkomulagið felur í sér skýra verkaskiptingu milli fyrirtækja, ábyrga íhlutun ríkisins í þágu byggðaþróunar, orkuöryggis og verðmætasköpunar – og afgerandi fyrirheit um sókn og aukna samkeppnishæfni landshlutans á næstu árum og áratugum.“

Í ávarpi sínu sagði hann einnig að staða raforkumála á svæðinu hefði alltof lengi verið „algjörlega óviðunandi.“ Of lengi hefði verið deilt um verkskiptingu og það hamlað uppbyggingu atvinnulífsins.

Ragna Árnadóttir, forstjóri Landsnets, fagnaði niðurstöðunni. „Raforkumál á Norðausturlandi hafa verið lengi til skoðunar og umræðu. Það er mjög gott að nú sé komin niðurstaða í þessu mikilvæga máli í samvinnu stjórnvalda, Landsnets og Rarik. Lausnin sem unnið verður að felur í sér aukið afhendingaröryggi á svæðinu og auk þess fjölmörg tækifæri til uppbyggingar, svæðinu og landinu öllu til heilla.“