Skip to main content

Landsnet skoðar styrkingu raforkukerfisins á Norðausturlandi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. apr 2023 14:16Uppfært 25. apr 2023 14:24

Landsnet hefur ákveðið að gera fýsileikakönnun á lagningu nýrrar raflínu sem myndi styrkja raforkukerfið á Norðausturlandi, einkum Þórshöfn og Vopnafirði, verulega. Verkefnið gæti orðið að veruleika á næsta áratug komi könnunin vel út en hún á að vera tilbúin í haust.


Hugmyndin að framkvæmdunum var kynnt á ráðstefnu um atvinnu- og byggðaþróun á svæðinu sem haldin var á Þórshöfn í byrjun mánaðarins. Könnuð verður lagning 132 KV raflínu til Brúarlands í Þistilfirði. Þaðan yrði síðan lögð önnur lína yfir til Vopnafjarðar í síðari áfanga.

Vinnan er afrakstur samstarfs Landsnets og Rarik um styrkingu raforkukerfisins á Norðausturhorninu. Landsnet flytur rafmagn milli landshluta og afhendir það á ákveðnum stöðum til Rarik sem dreifir því áfram til notenda. Í dag er afhendingarstaðurinn fyrir Þórshöfn við Kópasker og þaðan liggur 33 KV strengur yfir að Brúarlandi.

Sá strengur er flöskuhálsinn í kerfinu og gerir það meðal annars að verkum að ekki er hægt að rafvæða fiskimjölsverksmiðjuna á Þórshöfn, en úr þéttbýlinu inn að Brúarlandi er öflug loftlína sem borið getur meira afl en sent er eftir henni í dag. Endurskoðunin við Þórshöfn er hluti af umfangsmeiri athugun á raforkukerfinu á Norðausturhorninu milli Rarik og Landsnets.

Framkvæmdir á næstu fimm árum


Vinna við könnunina er hafin og á hún að vera tilbúin í haust. „Ef hún er jákvæð þá ætti að hægt að vera að fara í framkvæmdir á næstu fimm árum. Tengingin við Vopnafjörð væri þá á tíu ára áætlun,“ segir Gnýr Guðmundsson, forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti.

Hann tekur fram að tímasetningar séu miðaðar við að ekkert annað breytist, til dæmis að stór notandi kæmi inn á svæðið. Í viðtali við Austurgluggann í síðasta mánuði skýrði sagði forstöðumaður hjá Bremenports að meiri orku vantaði inn á svæðið til að hægt yrði að fylgja eftir hugmyndum um stórskipahöfn í Finnafirði.

Gnýr segir ekki hugsað sérstaklega um þau áform við gerð tengivirkis að Brúarlandi en styrkingin myndi auðvelda raforkuöflun í Finnafirði því þangað séu ekki nema 16-17 km. Eins sé ljóst að lína til Vopnafjarðar færi þar nærri.

Áherslan í könnuninni er á Þórshöfn þar sem raforkuöryggi á Vopnafirði hefur aukist verulega á allra síðustu misserum, annars vegar þegar stór hluti línunnar frá Héraði til Vopnafjarðar yfir Hellisheiði var lagður í jörðu, hins vegar með gangsetningu Þverárvirkjunar síðasta haust. Með nýju línunni væri komin hringtenging inn á Norðausturhornið sem er í samræmi við stefnu stjórnvalda um hringtengingu að öllum afhendingarstöðum raforku fyrir árið 2040.

Nýtt tengivirki á Hryggstekk


Eftir miklar framkvæmdir á vegum Landsnets á Austurlandi síðustu ár verður rólegt í ár. Stór framkvæmd er þó í undirbúningi því ákveðið hefur verið að ráðast í gerð nýs tengivirkis að Hryggstekk í Skriðdal. Þar með tengist „Austurlandshringurinn“ álverslínunum úr Fljótsdal til Reyðarfjarðar og þar með tengja Austfirði inn á raforkuframleiðslu virkjananna frá Blöndu austur í Fljótsdal. Reiknað er með að framkvæmdir fari á fullt á næstu 2-3 árum.

„Svæðið frá Fáskrúðsfirði til Vopnafjarðar færist þá inn á áhrifasvæði þeirra. Þegar þessi tenging verður komin á verða skerðingar á raforku til fiskimjölsverksmiðja mun sjaldgæfari,“ segir Gnýr að lokum.