Vindmyllur auka kröfur á flutningskerfi raforku

Efla þarf flutningskerfi Landsnets til að bregðast við sveiflum í flutningskerfinu ef raforka verður framleidd með vindorku hérlendis. Styrkja þarf byggðalínuna á Austurlandi sem annars staðar en uppistaðan í henni er 50 ára í ár.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við Guðmund Inga Ásmundsson, forstjóra Landsnets, í nýjasta tölublaði Austurgluggans. Landsnet hefur nýlokið miklum framkvæmdum eystra, svo sem að leggja hluta Vopnafjarðarlínu í jörð auk nýrrar línu til Norðfjarðar og tengivirkis á Eskifirði.

Þá var Kröflulína 3, milli Kröfu og Fljótsdals, tekin í gagnið í fyrra en hún er fyrsti áfanginn í nýrri byggðalínu. Landsnet fagnar því í ár að 50 ár eru síðan byggðalínan var tekin í notkun. Guðmundur Ingi segir kominn tíma á að endurnýja hana.

„Ef við berum saman vegakerfið eins og það var fyrir 50 árum miðað við kröfur dagsins í dag þá er augljóst að það gengur ekki upp. Sama á við um raforkukerfið, byggðalínan var byggð með þáverandi stöðlum. Hún hefur reynst okkur vel en undanfarin ár höfum við séð tíðar truflanir og flutningstakmarkanir.

Nú er rætt um orkuskipti með væntanlega auknu orkuflæði. Rætt er um að taka inn vindmyllur. Framleiðsla þeirra er mjög sveiflukennd sem eykur kröfur á flutningskerfið. Við þurfum því að uppfæra kerfið og erum byrjuð á því. Fyrsta skrefið var Kröflulína 3, frá Fljótsdalsstöð að Kröflu, sem var tekin í notkun í fyrra. Hólasandslína bættist við í haust. Þá höfum við tengt frá Fljótsdalsstöð til Akureyrar og byggt sterka eyju á Norðausturhorninu með fjórum stórum virkjunum.

Okkar ósk er að fara næst í Blöndulínu 3 og þannig Blönduvirkjun tengist inn á þetta kerfi til að auka öryggi, sveigjanleika og möguleika fyrir nýja notendur. Þar á eftir myndum við tengja Blöndu við sterka flutningskerfið í Hvalfirði. Þetta hefur allt verið í undirbúningi, Blöndulína 3 lengi. Þar hafa verið deilur sem vonandi leystast. Ef það dregst þá breytum við okkar forgangsröðun og förum í aðrar línur.“

Þarf að efla tengivirkið í Skriðdal

Þar með er staða flutningskerfis raforku á Mið-Austurlandi orðin nokkuð góð nema að styrkja þarf betur tenginguna við byggðalínuna og Fljótsdalsstöð. „Hluti byggðalínunnar liggur yfir Hallormsstaðarháls sem er sennilega eitt versta línustæði landsins. Þar er skýjaísing og tíðar truflanir með tilheyrandi kostnaði á veturna.

Úr Fljótsdalsstöð í álverið á Reyðarfirði liggja tvær stórar línur, við gerum ráð fyrir að tengja þær inn á tengivirki við Hryggstekk í Skriðdal. Þar með ætti öryggið að verða tryggt. Við erum að ganga frá nýrri kerfisáætlun en væntanlega verður þetta næsta stóra framkvæmdin hér. Það er líklegt að þetta verði árið 2025.“

Aðspurður segir Guðmundur ekki þörf á miklum framkvæmdum fyrir fyrirhugaðan orkugarð á Reyðarfirði sem knúinn yrði með vindorku ofan úr Fljótsdal. „Núverandi línur þarna á milli eru byggðar fyrir 400 kV spennu því þær áttu að geta mætt aukinni eftirspurn á Reyðarfirði. Þær geta því með einfaldri spennuhækkun flutt fjórfalt meira rafmagn en þær gera í dag.“

Þá hefur Landsnet brugðist við umfangsmiklu rafmagnsleysi sem varð eystra í óveðrinu í lok september. „Í fárviðrinu virðist málmhlutur hafa fokið á aðra línuna til álversins skammt frá álverinu sjálfu. Við það aftengdist línan kerfinu og búnaður í álverinu einnig. Í kjölfarið varð óheppileg röð atvika sem leiddi til rafmagnsleysis á stóru svæði.

Landsnet hefur þegar gripið til fyrirbyggjandi ráðstafana í kerfinu en aldrei er hægt að útiloka að svona óheppileg atburðarás fari af stað í þeirri flóknu stöðu sem við eru í á meðan landshlutarnir eru ekki betur tengdir saman.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum sem kom út í vikunni. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.