Boða aðgerðir í orkumálum á Norðausturlandi
Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, fulltrúar Landsnets og Rarik undirrita í dag viljayfirlýsingu um aðgerðir í orkumálum á Norðausturlandi. Yfirlýsingin kemur í kjölfar greiningar á stöðunni þar sem skort hefur öfluga tengingu og hringtengingu. Málið hefur helst strandað á því hver greiði fyrir framkvæmdina.
Í dag liggja 66kV línur að bæði Vopnafirði og Kópaskeri. Til Þórshafnar á Langanesi er aðeins ein lína, 33kV strengur frá Kópaskeri. Þetta þýðir annars vegar að orkuflutningur til Þórshafnar er afar takmarkaður, hins vegar að Vopnafjörður og Kópasker fá aðeins rafmagn úr einni átt.
Þetta þýðir að flutningur til staðanna er bæði ótryggur og ófullnægjandi sem aftur kemur niður á atvinnulífi. Fiskimjölsverkmiðjur á Vopnafirði og Þórshöfn hafa til dæmis á köflum verið keyrðar á olíu.
132kV lína eini raunhæfi kosturinn
Um miðjan október var kynnt niðurstaða greiningar Verkís fyrir Rarik á bættum tengingum á svæðinu. Til Þórshafnar eru um 60 km, hvort sem er frá Kópaskeri eða Vopnafirði og skoðaði Verkís bæði jarðstrengi og loftlínur. Snemma í matinu kom í ljós að hugmyndir um 66kV jarðstreng alla leiðina dygðu aldrei, meðal annars því vart verði keyptur nýr 66 kV búnaður.
Kostir og gallar eru við báðar leiðir. Almennt virðist skýrslan hallast að byggingu strengs frá Kópaskeri til Þórshafnar, þar sé búið að byggja upp 132 kV kerfi að hluta og og meira afl sé í boði heldur en frá Vopnafirði. Þeim megin þyrfti að endurbyggja hluta 66 kV línu milli fjarðarins og aðveitustöðvar á Eyvindará við Egilsstaði. Á móti myndi lína frá Vopnafirði tryggja Þórshöfn hringtengingu.
Samkvæmt heimildum Austurfréttar er eitt af því sem hefur staðið í vegi fyrir verkefninu skipting kostnaðar milli Rarik og Landsnets. Hann hleypur á milljörðum króna. Samkvæmt skýrslunni er 66 kV jarðstrengurinn ódýrasti kosturinn upp á 5,5 milljarða. Loftlína kostar 7,6 milljarða, 7,8 milljarða ef þeir 5 km sem næstur eru þéttbýli verða lagðir í jörðu og 9 milljarða með launaflsbúnaði.
Samvinna Rarik og Landsnets nauðsynleg
Undanfarna mánuði hefur hins vegar tekist að koma á samstarfi milli fyrirtækjanna og hófst það formlega í mars. Hnúturinn virðist með því hafa leysts, miðað við orð Magnúsar Þórs Ásmundssonar, forstjóra Rarik, í tilkynningu með skýrslunni.
„Samstarf Rarik, Landsnets og stjórnvalda er lykillinn að farsælli lausn. Fyrirtækið hefur átt samtal við Landsnet og stjórnvöld í tengslum við þetta verkefni og mun áfram vinna að lausn sem byggir á hagkvæmni, jafnræði og sanngjarnri kostnaðarskiptingu.
Allar fjárfestingar sem Rarik ræðst í lenda á viðskiptavinum Rarik sem eru íbúar landsbyggðarinnar. Landsmenn allir greiða hins vegar fyrir fjárfestingar Landsnets í gegnum gjaldskrá Landsnets sem dreifiveitur rukka fyrir í gegnum sína gjaldskrá. Það væri að mati Rarik réttlátara að allir landsmenn tækju þátt í að fjármagna svo stóra framkvæmd en ekki einungis viðskiptavinir Rarik,“ segir Magnús Þór.
Ekki sanngjarnt að viðskiptavinir Rarik borgi einir
Í tilkynningunni var áréttað enn frekar að viðskiptavinir fyrirtækisins gætu ekki einir staðið undir svo stórri fjárfestingu. Þar er framkvæmdinni líkt við byggðalínuna sem var mikið átak á sínum tíma en hafi til lengri tíma skilað þjóðinni hagsæld og verðmætum.
„Rarik leggur áherslu á að viðskiptavinir fyrirtækisins á Norðausturlandi njóti sama aðgengis að áreiðanlegri orku á við önnur heimili og fyrirtæki á landinu. Það er grundvöllur lífsgæða, verðmætasköpunar og áframhaldandi búsetu á svæðinu,“ er haft eftir Magnúsi.
Viljayfirlýsingin verður undirrituð á Þórshöfn klukkan 14:00 í dag. Þar verður nánar útskýrt í hverju áætlanir fyrirtækjanna og stjórnvalda felast.