Ekki byrjað á Fjarðarheiðargöngum fyrr en 2025

Ekki er áætlað fjármagn til Fjarðarheiðarganga í drögum að nýrri samgönguáætlun fyrr en árið 2025. Nýjum vegi yfir Öxi seinkar nema að fjármagn finnist frá einkaaðilum. Byrjað er á nýrri flugstöð í Reykjavík áður en Egilsstaðaflugvöllur er stækkaður. Framkvæmdum við Suðurfjarðarveg er heldur flýtt.

Þetta kemur í ljós þegar lesið er í gegnum drög að samgönguáætlun sem Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, kynnti í grófum dráttum á fundi í hádeginu í gær. Áætlunin í heild sinni varð aðgengileg í samráðsgátt stjórnvalda eftir fundinn. Þar eru framkvæmdir tímasettar og fjárveitingar skilgreindar. Greint er milli ára 2024-27 en síðan tímabilanna 2029-33 og 34-38.

Hringtengingunni frestað


Þar kemur fram að ekkert fjármagn er ætlað til Fjarðarheiðarganga á árinu 2024. Í eldri áætlunum hafði verið gert ráð fyrir að gangagröftur hæfist þá. Sjö milljarðar eru hins vegar settir í göngin árið 2025 og þau eiga að klárast á tímabilinu 2029-33. Fram kemur í athugasemd að jarðgangagerð eigi að fjármagna með gjaldtöku að umferð.

Skilgreint er fjármagn í undirbúning ganga undir Siglufjarðarskarð og Hvalfjörð á allra næstu árum. Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun áttu göng áfram frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð að vera næst á eftir Fjarðarheiðargöngum. Samkvæmt jarðgagnaáætlun sem birt var í gær eru þau hin sjöundu í röðinni. Í millitíðinni var unnin sérstök skýrsla fyrir Vegagerðina um jarðgangakosti í landinu.

Flugstöðin í Reykjavík gengur fyrir


Þrátt fyrir að í flugstefnu Íslands hafi uppbygging á Egilsstaðaflugvelli verið sett í forgang meðal varaflugvalla er það ekki næsta stórframkvæmd á flugvöllunum. Til stendur að hefja endurbyggingu flugstöðvarinnar í Reykjavík strax á næsta ári og á hún að vera tilbúin árið 2026.

Um milljarður króna er áætlaður í flughlað og akbraut á Egilsstaðaflugvelli árin 2026-27, 4,2 milljarðar 2029-33 og 2,6 milljarðar 2034-38. Framkvæmdin er lykilatriði í að völlurinn geti tekið við fleiri vélum og þannig sinnt hlutverki sínu sem varaflugvöllur. Á síðasta tímabilinu er einnig gert ráð fyrir einum milljarði í viðhald flugbrautar.

Af öðrum helstu flugvallarframkvæmdum á Austurlandi er það að frétta að 50 milljónir eru áætlaðar í viðhald bygginga á Vopnafirði á næstu tveimur árum, 60 milljónir í flugbrautina á Norðfirði 2027 en þar áður 95 í brautir á Suðausturlandi 2025-26.

Axarvegur veltur á einkafjármögnun


Á kynningarfundinum í gær sagði Sigurður Ingi að unnið væri að fjármögnun Axarvegar, sem átti að verða samvinnuverkefni með einkaaðilum. Þær áætlanir hafa ekki gengið eftir. Í núgildandi samgönguáætlun átti hann að vera tilbúinn í ár. Í drögunum sem birtust í gær er Axarvegur settur fram miðað við að ríkið fjármagni hann að fullu. Undirbúningur hefst þá 2027, vinna 2028 en þunginn í framkvæmdunum er á öðru tímabili, 2029-33. Í athugasemd segir að áætlað sé að fjármagna framkvæmdina að hluta með gjaldtöku.

Fleiri framkvæmdir eru komnar á dagskrá í nágrenni Djúpavogs. 400 milljónir eru settar í að færa til veginn við Teigarhorn árið 2027. Þá eru 100 milljónir eyrnamerktar árin 2029-33 í nýja tengingu frá þjóðvegi 1 að hafnarsvæðinu, eins og það er orðað í texta.

Suðurfjarðavegi áfangaskipt


Suðurfjarðarvegi er skipt upp í áfanga. 1,3 milljarður króna er áætlaður í framkvæmdir í botni Reyðarfjarðar árin 2027-28. Einbreið brú verður fjarlægð af Sléttuá, ný brú sett á Fossá og ný tenging gerð við Þórudalsheiðarveg.

Á öðru tímabili, 2029-33 eru alls fjórir milljarðar áætlaðir í annars vegar veginn frá þéttbýlinu í Fáskrúðsfirði að Vík og frá Stöðvarfirði að Kambanesskriðum. Tekið er fram að í þessum framkvæmdum verði einbreiðar brýr á Dalsá og Tunguá í botni Fáskrúðsfjarðar aflagðar sem og einbreið brú yfir Stöðvará í Stöðvarfirði.

Á þriðja tímabili, 2034-38, eru 1,7 milljarðar ætlaðir í að klára það sem út af stendur, frá Vík í Kambanesskriður. Samkvæmt núgildandi samgönguáætlun voru engir fjármunir ætlaðir í veginn fyrr en 2030-34 og var þá talað um hann sem eina framkvæmd, frá Reyðarfirði að Breiðdalsvík.

Stálþil til að verja veginn um Grænafell fyrir snjóflóðum virðist tefjast. Á núverandi áætlun eru 200 milljónir ætlaðar í verkið 2025-29 en eru núna 500 milljónir 2029-33. Ljóst er þó að hönnun verksins hefur þokast áfram síðustu ár.

Vegir á Fljótsdalshéraði


Í nýja Lagarfljótsbrú milli Egilsstaða og Fellabæjar eru áætlaðir 4,6 milljarðar á síðasta tímabili, 2034-38. Upphaf framkvæmda var áður áætlað á tímabilinu 2034-38. Á undan, 2029-33, eru 800 milljónir settar í færa veginn suður fyrir Egilsstaði og tengja hann núverandi þjóðvegi inn í Hérað með hringtorgi. Færslan er hluti af framkvæmdum við Fjarðarheiðargöng.

Annars staðar á Héraði eru settar 300 milljónir til að endurbæta veginn upp í Klaustursel, sem jafnframt liggur að Stuðlagili og klæða hann. Það er þó ekki fyrr en 2029-33. Á sama tíma eru 100 milljónir ætlaðar til að laga veginn neðan við bæinn Strönd á Völlum.

Hafnarframkvæmdir


Ríkið leggur til um helming fjár til ýmissa hafnaframkvæmda á Austurlandi. Á Vopnafirði stendur til að lengja löndunarbryggjuna og eru 350 milljónir settar í það árin 2024-26. Á Seyðisfirði á að endurbyggja Angróbryggjuna fyrir tæpar 60 milljónir á næsta ári og síðan 2026-28 lengja Strandarbakka fyrir um 200 milljónir.

Til Borgarfjarðar er veitt 60 milljónum á næstu tveimur árum til að að lengja varnargarð og gera nýja löndunarbryggju. Árið 2026 eru síðan ætlaðar 26,6 milljónir í að lengja Hólmabryggju. Loks er gert ráð fyrir að endurbyggja ferjuaðstöðuna í Mjóafirði.

Út af standa síðan minni framkvæmdir svo sem slitlag á styttri malarkafla. Fjármagn er skilgreint til þeirra í heild en ekkert um einstaka fletti. Fyrirvari hefur verið settur um að forgangsröðun sé metin út frá fjármálaáætlun sem endurskoðuð er árlega. Sú endurskoðum geti breytt forgangsröðuninni.

Mynd: Mannvit/Vegagerðin

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.