Bjóða Prís verð á 200 vörutegundum í Kjörbúðunum til áramóta
Vart hefur farið framhjá fólki að samkeppni á matvörumarkaðnum í höfuðborginni jókst töluvert með tilkomu verslunarinnar Prís í Kópavogi sumarið 2024 enda gekk hún út á að bjóða enn lægri verð á matvælum en risarnir Bónus og Krónan. Nú geta Austfirðingar til áramóta notið sömu lágu verðlagningarinnar á einum 200 vörum í Kjörbúðunum.
Vörurnar 200 eru þegar komnar í hillur Kjörbúðanna fimm á Austurlandi en þær finnast í Neskaupstað, á Eskifirði, Seyðisfirði, Fáskrúðsfirði og Djúpavogi og eru kyrfilega merktar með „Prís-verði“ í hillum verslananna.
Þar munar um minna því Prís hefur frá opnun mælst ódýrasta matvöruverslun landsins samkvæmt reglulegum úttektum verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands.
Ekki fengust upplýsingar um hvers vegna „Prís-verðið“ á umræddum vörum er aðeins í boði til áramóta í verslunum Kjörbúðarinnar en ekki er talið útilokað að tilboði þessu verði framhaldið með einhverjum hætti lengur en svo. Það er enda Samkaup, eigandi Kjörbúðanna, sem einnig á og rekur verslun Prís.