Engar breytingar á framkvæmdum á Austurlandi áður en samgönguáætlun verður lögð fyrir Alþingi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. sep 2023 10:44 • Uppfært 07. sep 2023 11:00
Engin breyting hefur orðið á stöðu framkvæmda á Austurlandi í þeirri samgönguáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi síðar í mánuðinum. Innviðaráðherra segir endanlega forgangsröðun verða í höndum Alþingis en áætlunin sé alltaf afmörkuð af þeim fjármunum sem séu til staðar.
Drög að samgönguáætlun 2024-38 var lögð fram í júní og umsagnarfrestur veittur fram í byrjun ágúst. Tæplega 80 umsóknir bárust á þeim tíma. Innviðaráðuneytið yfirfór þær áður en áætlunin var kynnt aftur inn í ríkisstjórn um mánaðamótin. Þaðan fer hún til þingflokkanna. Reiknað er með að áætlunin verði formlega lögð fram á Alþingi í annarri viku þings, eða eftir um tvær vikur.
„Við tókum tillit til þeirra athugasemda sem við gátum en erum bundin af því að í fjármálaáætlun er tiltekið ákveðið fjármagn í samgöngur. Ég gæti hæglega notað 20-25 milljarða á ári umfram það svigrúm sem búið er að búa til,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, í samtali við Austurfrétt að loknum fundi ríkisstjórnarinnar með austfirskum sveitarfélögum fyrir viku.
Eins og við mátti búast voru samgöngumálin ofarlega hjá austfirska sveitarstjórnarfólkinu. Það hefur gagnrýnt að ekki sé fyrirhugað að ráðast í nýframkvæmdir í vegum á svæðinu fyrr en 2027, með þeim formerkjum þó að ef tekst að útfæra gjaldtöku í samvinnu við einkaaðila af Öxi þá verði hægt að fara í þá framkvæmd fyrr. Nánari útfærsla þess, sem og gjaldtöku á umferð um jarðgöng og tekjuöflun fyrir samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins er í höndum sérstakrar verkefnastofu innviðaráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins.
„Við ætlum á þessum 15 árum að útrýma einbreiðum brúm á hringveginum. Þar undir eru brýr á Suðurfjörðum og ný Lagarfljótsbrú. Það eru settir 2,5 milljarðar í tengivegi sem þýðir að við getum get meira þar,“ segir Sigurður Ingi.
Svæðisskipulagið hefur skapað sterkari sameignlega sýn
Í umsögnum sínum um samgönguáætlunina lýstu austfirsku sveitarfélögin vonbrigðum með að horfið væri frá núgildandi jarðgangaáætlun, þar sem göng frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð voru næst á eftir Fjarðarheiðargöngum í forgangsröðuninni. Seinni gögnin eru núna hin sjöttu og það er óbreytt í áætluninni sem fer fyrir þingið. Þá lýstu Vopnfirðingar vonbrigðum með að göng undir Hellisheiði væru ein af fernum göngum sem til stendur að skoða nánar, frekra en meðal þeirra 14 ganga sem forgangsraðað er. „Ég legg áætlunina svona fram fyrir þingið. Það forgangsraðar og ákveð hvaða peninga ég fæ,“ segir Sigurður Ingi.
Aðspurður um málflutning austfirsku sveitastjórnanna á fundinum sagði hann að meiri samhljómur væri í honum en oft áður. Hringtenging með jarðgöngum frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar og áfram til Norðfjarðar var þar þungamiðjan.
„Mér fannst koma fram sterkari sameiginleg sýn sem ég skynja að sé sprottin upp úr glæsilegri vinnu um svæðisskipulag Austurland. Ég held hún hafi hjálpað landshlutanum. Málflutningurinn var vel undirbúinn og framsettur. Ef Austurland væri okkar eina verkefni þá gætum við gert meira.“
Byrjað á framkvæmdum á Egilsstaðaflugvelli eins fljótt og hægt er
Þá hefur verið gagnrýnt að ekki verði farið í framkvæmdir á Egilsstaðaflugvelli, við nýja akbraut og flughlað, fyrr en árið 2026. Sigurður Ingi segir ekki tæknilega hægt að gera það fyrr en bendir á að varaflugvallagjald, sem Alþingi samþykkti á sínum síðasta fundi fyrir sumarfrí, hjálpi til við framkvæmdir.
„Það gjörbreytir myndinni í fjármögnun flugvalla úti á landi, einkum alþjóðaflugvalla eins og á Egilsstöðum. Að mati Isavia er ekki hægt að komast fyrr í flugbraut og flughlað fyrr en árið 2026. Þá verður farið á fullt í verkefni sem kostar 8,6 milljarða. Þangað til verður tíminn nýttur í undirbúning og peningar eru tryggðir í hann á næsta ári og þar næsta.
Síðan eru 1,7 milljarður í viðhald á vellinum á þessum tíma auk 640 milljóna á Vopnafirði, Þórshöfn og Norðfirði. Það eru því fjölmargir þættir í samgönguáætluninni sem horfa til Austurlands.“
Aukin umferð kostar meira viðhald
Samkvæmt dagskrá ríkisstjórnarfundarins lagði Sigurður Ingi þar fram gögn um ástand þjóðvega. Hann segist þar hafa verið að vekja athygli á mikilli aukningu umferðar í öllum landshlutum og hvað hún þýði fyrir vegakerfið.
„Umfeðrin er 7% meiri á vegunum í júlí. Á Suðurlandi er uppsöfnuð aukning 16% og 10% á höfuðborgarsvæðinu, sem er óvenju mikið. Þetta þýðir meira slit og enn meiri þörf á fé til viðhalds. Ég var aðeins að vekja athygli á þessu og hef gert það áður, meðal annars við framlagningu samgönguáætlunar, að það þarf meira fé til viðhalds og vetrarþjónustu.“