Útgerð Ljósafells hætt með tilkomu Þórunnar Sveinsdóttur
Loðnuvinnslan á Fáskrúðsfiðri hefur samið við Vinnslustöðina í Vestmannaeyjum um kaup á ísfisktogaranum Þórunni Sveinsdóttur. Um leið lýkur sögu Ljósafellsins á Fáskrúðsfirði. Áhöfn þess verður boðin vinna á nýja skipi en í Eyjum verður áhöfninni sagt upp.
Kaupin eru gerð með fyrirvara um forkaupsrétt Vestmannaeyjabæjar. Gert er ráð fyrir að Þórunn verði afhent Loðnuvinnslunni í lok mars á næsta ári.
Við það lýkur sögu Ljósafells, skipsins sem þjónað hefur Fáskrúðsfirðingum í meira en hálfa öld, en það kom til heimahafnar 31. maí árið 1973. Það er hið síðasta sem eftir er hérlendis af svokölluðum Japanstogurum. Til stendur að setja Ljósafellið á söluskrá en áhöfn þess verður boðin vinna á nýja skipinu.
Nýtt og öflugt skip
Í tilkynningu Loðnuvinnslunnar er haft eftir Garðari Svavarssyni, framkvæmdastjóra, að lengi hafi verið skoðað að endurnýja Ljósafellið en tryggð hafi verið haldið við það með góðu viðhaldi. Það hefur farið í slipp á um tveggja ára fresti, meðal annars skömmu fyrir 50 ára afmælið. Þórunn er hins vegar mun öflugra skip, getur dregið tvö troll og getur borið tæplega 60% meiri afla.
Skipið er smíðað, eins og svo mörg önnur íslensk skip síðustu ár, í Karstensens skipasmíðastöðinni í Danmörku árið 2010. Það var lengt þar árið 2019 og er í dag 46,3 metra langt og 11,2 metra breitt.
Vinnslustöðin breytir um kúrs eftir hækkun veiðigjalda
Vinnslustöðin eignaðist skipið með kaupum á útgerðinni Óss og vinnslunni Leo Seafood vorið 2023. Í yfirlýsingu þá var því heitið að halda rekstrinum óbreyttum. Í sumar var hins vegar tekin ákvörðun um að loka vinnslunni og selja skipið. Starfsmönnum vinnslunnar var þá sagt upp en við söluna nú er 20 manns í áhöfninni líka sagt upp.
Í tilkynningu Vinnslustöðvarinnar um viðskiptin nú er skuldinni skellt á hækkun veiðigjalda. Út frá ársreikningum samstæðunnar má lesa að fyrirtækið er afar skuldsett og vextir hvíla þungt á því. Rekstrarniðurstaðan snérist úr methagnaði, 45 milljörðum króna, árið 2023 í 500 milljóna tap árið 2024. Samstæðan skilaði jákvæðu sjóðsstreymi í fyrra en það var neikvætt hjá móðurfélagi. Í skýringum segir að loðnubrestur hafi reynst félaginu erfiður.
Komið að endurnýjun Ljósafells
Í tilkynningunni frá í morgun segir að salan á Þórunni Sveinsdóttur sé liður í að lækka skuldir, auk þess sem hætt hafi verið við endurnýjun botnfiskskipa. Þar segir að enn frekar verði farið yfir næstu skref félagsins.
Í tilkynningu Loðnuvinnslunnar segir að viðskiptin nú hafi borið brátt að en þau hafi þurft sinn meðgöngutíma í „ljósi ýmissa áskorana framundan í rekstri útgerðarfyrirtækja.“ Ekki hafi þó verið hægt að horfa framhjá því að Ljósafellið væri „ekki að yngjast.“