Ljósafellið komið heim úr 50 ára afmælisslipp
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 11. sep 2023 15:26 • Uppfært 11. sep 2023 15:26
Ljósafell, togari Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, kom til heimahafnar í dag eftir að hafa verið í slipp í Færeyjum síðan í lok ágúst.
„Við höfum þann sið að senda skipin okkar í slipp á tveggja ára fresti. Öðru viðhaldi sinnum við hér á staðnum,“ segir Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Loðnuvinnslunnar.
Þessi yfirhalning hefur þó yfir sér annan blæ þar sem skipið er 50 ára í ár og á föstudag verður því fagnað um leið og haldið er upp á 90 ára afmæli Kaupfélags Fáskrúðsfirðinga, sem aftur á 83% í Loðnuvinnslunni.
Ýmislegt hefur verið gert fyrir Ljósafellið að þessu sinni. Bæði aðal- og ljósavélar hafa verið teknar upp, allt skipið málað að utan og málað í lest, millidekki og víðar, allir botn- og síðulokar verið teknir upp, björgunarbúnaður yfirfarinn, haffæri endurnýjað, skipið allt þykktarmælt fyrir utan aðra yfirhalningu en verknúmerin voru alls 130 talsins.
Skipið var sent til Færeyja að undangengnu útboði. „Það skiptir ekki öllu hvort við siglum í 22 tíma til Færeyja eða um 20 tíma til Akureyrar eða 30 tíma til Reykjavíkur,“ útskýrir Friðrik.
Hann segir skipið vera í fínu formi. „Því hefur alltaf verið vel við haldið og vel gengið um það.”
Fyrirhugað er að Ljósafellið fari út til bolfiskveiða eins fljótt og hægt er en nýtt kvótaár er nýhafið. Það á síðan að vera komið aftur í höfn tímanlega fyrir afmælishátíðina á föstudagskvöld.
Ljósafell leggur að bryggju á Fáskrúðsfirði í dag. Mynd: Friðrik Mar Guðmundsson