Ljósafell eitt eftir af Japanstogurunum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. okt 2023 17:10 • Uppfært 03. okt 2023 17:12
Útlit er fyrir að Ljósafell SU, skip Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði, standi nú eftir sem hið eina af tíu svokallaðra Japanstogara sem komu til landsins fyrir hálfri öld. Hinir togararnir níu hafa annað hvort lokið hlutverki sínu eða verið seldir úr landi. Fjórir þeirra áttu upphaflega heimahafnir á Austfjörðum.
Fiskifréttir greindu frá því í morgun að búið væri að segja upp áhöfn Múlabergs ÓF upp störfum. Leki kom að skipinu í síðustu veiðiferð og ekki þykir svara kostnaði að gera það upp. Skipið hefur alla tíð verið gert út frá Ólafsfirði en hét upphaflega Ólafur Bekkur
Af hverju Japanstogararnir?
Japanstogararnir voru eins og nafnið ber með sér smíðaðir í Japan. Þeir komu til landsins einn af öðrum á árinu 1973. Þeir voru flestir afar fengsælir og mörkuðu í raun upphaf skuttogaraútgerðar Íslendinga. Þá hafa togarnir gjarnan farið með í togararall Hafrannsóknastofnunar.
Á árinu 1971 voru útgerðir víða um land farnar að velta fyrir sér hugmyndum um smíði skuttogara. Leitað var eftir tilboðum og komu þau flest frá evrópskum skipasmíðastöðvum en síðan barst óvænt tilboð frá Japan.
Einhver reikistefna varð um hvort rétt væri að smíða skip í Japan en það varð að endingu raunin, enda kom hvort sem er mikið af búnaði togaranna þaðan. Togararnir tíu voru smíðaðir eftir sömu teikningunni.
Fyrst komu Vestmanney til Vestmanneyja og Páll Pálsson til Ísafjarðar. Bæði skipin eru eftir því sem næst verður komist enn gerð út. Vestmanney heitir Argenova XXI og er í Argentínu en Páll Pálsson heitir Campelo 2 og er í Angóla.
Vinsælir á Austfjörðum
Þriðja skipið var Bjartur NK sem kom til Síldarvinnslunnar. Hann var seldur úr landi árið 2016 til Íran. Þá hafði Bjartur fiskað 140.000 tonn og aflaverðmætið orðið hátt í 30 milljarðar. Áður en skipið var selt voru fleiri hugmyndir um nýtingu þess. Þannig íhugaði hópur athafnamanna að breyta því í einhvers konar fljótandi hótel í Reykjavíkurhöfn.
Brettingur kom til Vopnafjarðar. Útgerðin hét þá Tangi en sameinaðist síðan HB Granda sem í dag heitir orðið Brim. Þá komst flakk á skipið sem selt var til Hull á Englandi árið 2007. Það fékk heitið Samhire og var skráð í Belís. Það var aftur keypt til Íslands árið 2010 og fékk þá aftur Brettingsheitið. Það var fyrst gert út frá Keflavík og síðan Reykjavík áður en það var aftur selt úr landi 2015.
Hvalbakur var gerður út frá Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Sú útgerð gekk illa og var hann því seldur til Fáskrúðsfjarðar árið 1976 og varð við það Hoffell SU. Það nafn bar skipið fram til ársins 1997. Þá var það selt til Vestmannaeyja og nefnt Jón Vídalín. Þaðan var skipið selt til Íran árið 2016 en heitir í dag, eftir sem næst verður komist, Taiko Maru og er skráð í Belís.
Ljósafellið nýbúið í slipp
Rauðinúpur ÞH átti heimahöfn sína á Raufarhöfn þar til hann var seldur úr landi árið 1997. Hann heitir í dag Vulkannyy. Drangey var fyrst í Skagafirði en síðan gerð út frá Akureyri sem Sólbakur. Það heitir í dag Kappin og er í Færeyjum.
Arnar HU var gerður út frá Skagaströnd í 20 ár þar til það var selt til Samherja og varð Hríseyjan EA. Skipið vann sér ýmislegt til frægðar, fylgdi meðal annars víkingaskipinu Víkingi yfir Atlantshafið og bjagaði Þorsteini EA þegar það skip fékk í skrúfuna í Reykjafjarðarál í ísingarveðri árið 1988. Það skip var selt í brotajárn árið 2004.
Að endingu er það síðan Ljósafellið. Það var næst síðasti Japanstogarinn sem kom til landsins, Arnar var síðastur. Það er enn í fullu fjöri og nýbúið í slipp í tilefni af 50 ára afmælinu.
Ljósafell við komuna til Fáskrúðsfjarðar í byrjun september. Mynd: Friðrik Mar Guðmundsson