Skip to main content
Síðustu dagar hafa verið rólegir í lögregluumdæminu. Mynd: GG

Tvö umferðaróhöpp í hálku í gærkvöldi

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 28. okt 2025 15:55Uppfært 28. okt 2025 15:59

Tvö umferðaróhöpp urðu í hálku í gærkvöldi í umdæmi lögreglunnar á Austurlandi. Leitarflokkar voru settir í viðbragðsstöðu á sunnudag vegna rjúpnaskyttu sem skilaði sér seinna til byggða en stefnt var að.

Umferðaróhöppin tvö urðu annars vegar í Neskaupstað, hins vegar á Eskifirði. Engin slys urðu á fólki en smávægilegt eignatjón.

Á Eskifirði barst tilkynning um að keyrt hefði verið utan í rafmagnskassa. Ökumaðurinn var á bak og burt þegar atvikið var tilkynnt lögreglu. Í Neskaupstað rann bíll til í brekku og lenti utan í steyptum vegg.

Veturinn kom á Austurlandi fyrir viku og urðu vandræði á fjallvegum á þriðjudag og miðvikudag. Aðstæður höfðu því ekkert breyst í gærkvöldi fyrir utan að það snjóaði aðeins. Ólíkt suðvesturhorninu hefur veðrið á Austfjörðum verið skaplegt í dag og sólin skinið eftir hádegið.

Helgin var annars róleg hjá lögreglunni á Austurlandi. Á sunnudag óskuðu veiðifélagar rjúpnaskyttu eftir aðstoð þar sem skyttan skilaði sér heldur seint til byggða. Verið var að undirbúa leit þegar maðurinn kom fram.