Hrun í komum skemmtiferðaskipa á Djúpavog og Borgarfjörð
Það að útgerðir skemmtiferðaskipa stytti Íslandsferðir vegna aukinnar gjaldtöku kemur hart niður á minni höfnum. Útlit er fyrir að skipakomur detti nær alveg upp fyrir á Borgarfirði eystra á næstu tveimur árum og helmingist á Djúpavogi. Tekjutap Múlaþings er áætlað meira en milljarður króna.
Samkvæmt minnisblaði, sem unnið var fyrir Múlaþing, voru skemmtiferðaskipin á Borgarfirði 22 í ár, en verða 12 á næsta ári og aðeins eitt árið 2027. Á Djúpavogi fækkar þeim úr 59 í ár, í 42 á næsta ári og loks 31.
Fækkun er einnig á Seyðisfirði, úr 92 skipum í ár í 71 eftir tvö ár. Fækkunin í Múlaþingi er úr 173 skipum í 103 á þessu tímabili, en halda má því til haga að skipin voru 181 í fyrra.
Innviðagjald og afnám tollfrelsis
Ástæðan er hærri gjöld sem skipafélögin þurfa að greiða til íslenska ríkisins. Þau eru í tvennu lagi. Annars vegar er um að ræða innviðagjald sem er 2.500 krónur á sólarhring af hverjum farþega þann tíma sem skip dvelur innan íslensku landhelginnar. Þetta gjald á við um stærri skip í siglingum á milli landa.
Hitt atriði er afnám tollfrelsis fyrir svokölluð leiðangursskip. Þau eru minni og stunda siglingar hringinn í kringum landið. Vísbendingar eru um að skipin ætli sér að halda í tollfrelsið með því að sigla út úr lögsögunni og koma við í höfnum á Grænlandi og í Færeyjum. Á móti fækkar viðkomustöðunum á Íslandi og það bitnar á Austfjörðum.
Fyrirvarinn þarf að vera í árum
Dagmar Ýr Stefánsdóttir, sveitarstjóri, segir tölurnar um bókanirnar benda til þess að áhrifin á Múlaþing verði veruleg. „Skipin eru yfirleitt bókuð tvö ár, jafnvel fjögur ár, fram í tímann. Að fá inn gjald með engum fyrirvara þýðir að þau geta ekki velt honum út í kostnaðinn. Það er líka slæmt fyrir orðspor Íslands að ekki sé fyrirsjáanleiki í viðskiptum.
Á stöðum eins og Borgarfirði, þangað sem hafa komið um 20 skip á ári, sjáum við algjört hrun. Það verður áfall fyrir ferðaþjónustuaðila sem hafa verið að byggja upp þjónustu fyrir farþega þeirra,“ segir Dagmar.
Skipafélögin mótmæla með fótunum
Innviðagjaldið er komið til frá fyrri ríkisstjórn. Núverandi ríkisstjórn hefur boðað 500 króna afslátt af því á næsta ári en fulla gjaldheimtu árið 2027. „Þau hafa mótmælt þessari gjaldheimtu og fylgja því eftir með bókunum sínum, eins og þessi 43% samdráttur í Múlaþingi ber merki um.
Það er enginn ósáttur við að það sé eitthvert gjald en það verður að vera með fyrirsjáanleika og innan sársaukamarka. Skattar yfir sársaukamörkum snúast upp í andhverfu sína og enda í tapi. Við höfum dæmi frá Alaska sem lagði á of háa skatta sem urðu til þess að skipin fóru. Þar hefur tekið 13 ár að byggja þau upp aftur með alls konar ívilnunum, sem er ekki það sem við viljum.“
Gömul mýta að skemmtiferðaskipin skapi ekki tekjur
Einkum leiðangursskipin hafa verið gagnrýnd fyrir að vera í samkeppni við gististaði, einkum hótel, í landi. Dagmar telur það ekki rétt. „Það liggja fyrir góðar greiningar um að þetta er ekki sami kúnnahópurinn. Þetta er sérhæfður hópur sem sækir í aðra hluti. Við getum líka spurt okkur að því hversu mikils virði það sé að halda í þessa þjónustu á þeim stöðum þar sem eru færri ferðamenn.“
Skemmtiferðaskipin hafa einnig verið gagnrýnd fyrir að farþegar þeirra stoppi stutt í landi og skilji lítið eftir sig. Í minnisblaði Múlaþings er gert ráð fyrir að á næstu tveimur árum hverfi rúmir 1,3 milljarðar króna út úr hagkerfi sveitarfélagsins vegna fækkunar skipanna. Dagmar telur það varlega áætlað því talan byggi aðeins á tekjum hafnarsjóðs og áætluðum tekjum í landi.
Minnisblaðið byggir á þeim forsendum að hver gestur eyði 24.000 krónum í landi, sem er tala sem byggir á könnun sem gerð var á Ísafirði. Hvert skip skilar að meðaltali 2,2 milljónum í hafnarsjóð sem skilaði honum tæpum 400 milljónum króna í heildina í fyrra. Neyslutekjur í landi eru taldar hafa verið tæpir 2,7 milljarðar.
„Að farþegar skipanna skilji ekki eftir neinar tekjur er gömul mýta. Við höfum séð annað. Á Djúpavogi hafa til dæmis byggst upp fyrirtæki sem ekki voru til áður og hafa miklar tekjur af þessum farþegum. Þeir fara í ferðir, nýta sér þjónustu, kaupa veitingar á áfangastöðum og versla minjagripi. Minni skipin eru hálfgerð lúxusskip og farþegar þeirra eru líklegri en aðrir til að fjárfesta í listmunum úr héraði.“
Árið 2027 er farið en baráttan snýst um framtíðina
Fulltrúar Múlaþing sóttu í síðasta mánuði stóra kaup- og ráðstefnu fyrir skemmtiferðaskip í Þýskalandi. „Það var þungt að sækja ráðstefnuna. Við fundum fyrir vonbrigðum með að það ætti aðeins að lækka gjaldið tímabundið um 500 krónur. Það voru greinilega væntingar um annað,“ segir Dagmar.
Staðan hefur verið rædd við þingmenn kjördæmisins og Dagmar var meðal bæjarstjóra sem á þriðjudag komu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, til að ræða stöðuna. Hún segir þingmenn sýna skilning, einkum þá sem komi af landsbyggðinni og sjái afleiðingarnar. Vonir séu þess vegna um að gjaldheimtunni verði breytt að einhverju leyti til baka.
En það skiptir væntanlega ekki máli varðandi þær tölur sem þegar liggja fyrir um næstu tvö ár. „Á ráðstefnunni fengum við þau skilaboð að það væri of seint að snúa til baka fyrir árið 2027 því skipin eru fest tvö ár fram í tímann. Við erum að berjast fyrir árinu 2028 og áfram eftir það.“