Skip to main content
Nemendur úr Menntaskólanum á Egilsstöðum fóru fyrir göngu á kvennafrídaginn árið 2005. Lengst til hægri í myndinni glittir í Hólmfríði. Mynd: GG

„Viljum hvetja konur til að finna fyrir kraftinum í samstöðunni“

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. okt 2025 11:05Uppfært 22. okt 2025 11:05

Nokkur austfirsk félög standa fyrir sameiginlegum viðburði í tilefni af kvennafrídeginum á Egilsstöðum á föstudag. Einn skipuleggjenda viðburðarins segir nauðsynlegt fyrir konur að standa saman til að vinna bug á misrétti.

Viðburðurinn á Egilsstöðum hefst klukkan 13:30 á föstudag með göngu frá N1 í Valaskjálf. Þar verður dagskrá með ræðum og síðan fylgst með beinni sjónvarpsútsendingu frá viðburði í Reykjavík. Rútuferðir verða frá nágrannabyggðarlögum.

„Það hefur gjarnan verið einn viðburður á Héraði og annar í Fjarðabyggð. Við ákváðum að sameinast á Egilsstöðum að þessu sinni og vera næst í Fjarðabyggð.

Við gerum það því við viljum hvetja konur til að finna fyrir kraftinum í samstöðunni. Til að eiga möguleika á að vaxa og útrýma misréttinu verðum við að standa saman,“ segir Hólmfríður Rut Einarsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu á Austurlandi.

Mismunurinn meiri á landsbyggðinni

Hennar félag er eitt þeirra sem standa að viðburðinum, ásamt Kennarasambandi Austurlands, svæðadeild Félags leikskólakennara á Austurlandi, AFLi Starfsgreinafélagi, Félagi íslenskra rafvirkja auk einstaklinga. Styrkir hafa fengist frá fyrirtækjum, sveitarfélögum og kvenfélögum. 

Kvennafrídagurinn í ár hefur aukið mikilvægi í ljósi þess að 50 ár eru liðin síðan sá fyrsti var haldinn. „Þótt við höfum unnið marga sigra á þessum tíma þá sýna rannsóknir okkur að margt er eftir, einkum á landsbyggðinni. Þar er munurinn meiri. Hlutfall kvennastétta er þó afar hátt þar því einkafyrirtækin eru bæði færri og frekar karllæg.

Sem formaður FKA á Austurlandi vona ég að viðburður eins og þessi sýni samstöðuna þannig að fleiri konur þori að taka skrefið í þær áttir sem þær langar. Um leið viljum við sýna stuðning í verki við þessar stéttir sem ekki hafa fengið þann meðbyr sem þær verðskulda.

Baráttan snýst líka um ofbeldi. Kynbundið ofbeldi er staðreynd, sama hvar á landinu litið er. Konur verða að finna stuðning í samstöðunni til að þora að taka skrefið og stíga út úr aðstæðum. Þótt úrræðunum hafi fjölgað hér vantar enn mörg þeirra sem eru á Akureyri og í Reykjavík. Þess vegna er enn mikilvægara að sameinast.“

Líka gengið á Vopnafirði

Sérstök dagskrá verður líka á Vopnafirði. Þar verður gengið frá Vopnafjarðarskóla klukkan 13:45 að Miklagarði. Í félagsheimilinu verður dagskrá með ræðum og tónlist áður en útsendingin úr Reykjavík byrjar.