Skip to main content

„Margt breyst en það gerðist ekki af sjálfu sér“

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 24. okt 2023 16:49Uppfært 24. okt 2023 16:50

Ragna S. Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri Íslensks dúns á Borgarfirði eystra, rifjaði upp minningar frá fyrsta kvennafrídeginum árið 1975 á baráttufundi sem haldinn var á Egilsstöðum í dag. Hún sagði konur þurfa að halda áfram að sækja á réttindi sín til að komast alla leið.


Ragna var tólf ára þegar hún gekk með systur sinni og tveimur börnum hennar niður Laugarveginum í átt að Lækjartorgi þar sem haldinn var útifundur í tilefni fyrsta kvennafrídagsins 24. október árið 1975.

Um 25.000 manns mættu til fundarins og vakti hann athygli langt út fyrir landsteinanna. Ragna sagði Lækjartorg hafa verið fullt af „alls konar konum.“

Hún minntist þess einnig að hafa á leiðinni horft upp í húsin við Laugaveginn þar sem skrifstofur voru á efri hæðum. „Þar voru karlarnir með börnin með sér í vinnunni úti í gluggum að horfa á kvenhafið.“

Rauðsokkurnar voru sagðar öfgafullar


Hún rifjaði einnig upp hvernig andrúmsloftið var í aðdraganda fyrsta kvennafrídagsins. Karlar hefðu verið ráðandi á öllum sviðum þjóðfélagsins. Lítil áhersla hefði verið á velferðarkerfið og leik- og grunnskólar byggst upp á að konur ynnu heima.

Rauðsokkuhreyfingin hefði orðið til í kringum 1970 og verið uppnefnd öfgahreyfing, í henni væru illa klipptar konur í ljótum fötum sem hötuðu karla því þær gætu ekki náð sér í einn. Hreyfingin hefði gagnrýnt feðraveldið, kúgun kvenna og bága stöðu á vinnumarkaði sem hefði skilað sér í mikilvægi baráttu.

Ragna rakti að síðan hefði margt áunnist, bæði um þetta leyti og síðar, allt frá því þegar Vigdís Finnbogadóttir varð fyrst kvenna þjóðkjörinn landsforseti árið 1980 þar til Jóhanna Sigurðardóttir varð fyrsta konan til að gegna embætti forsætisráðherra árið 2009.

„Marg hefur breyst en það gerðist ekki af sjálfu sér. Við erum ekki komnar í mark en við komumst þangað. Við verðum að halda áfram að sækja. Við megum hafa hátt og vera ákveðnar.

Prófum að sleppa tökunum á þriðju vaktinni og athugum hvort einhver grípi boltann. Hrósum hverri annarri frekar en gagnrýna. Stærstu hindranirnar eru oft í kollinum á okkur,“ sagði Ragna.

Konan sem byggir húsið


Hún rifjaði líka upp sögu ömmu sinnar sem varð ekkja á þrítugsaldri með fjölda barna. Hún hefði ráðið sig í vinnu til að afla fjár og börnin farið snemma að heiman í sömu erindum. Ragna sagði móður sína hafa farið til Reykjavíkur í vist um fermingaraldurinn. Það hefði setið í henni og hún verði hörð á því við dætur sínar að þær menntuðu sig til að geta orðið fjárhagslega sjálfstæðar.

Ragna sagðist einnig hafa lent í ýmsum skoplegum uppákomum sem stjórnandi fyrirtækja. Til að mynda væri maðurinn hennar alla jafna spurður út í húsið sem Íslenskur dúnn er að reisa á Borgarfirði. „Hann er ekki að byggja húsið heldur ég.“