Segir sögu erlendra kvenna á Austurlandi í gegnum leikrit með brúðum
Tess Rivarola á Seyðisfiðri hefur undanfarna mánuði leitt verkefni sem kallast „Sæhjarta“ þar sem hún hefur safnað sögum erlendra kvenna sem sest hafa að á Austurlandi. Afraksturinn túlkar hún í gegnum brúðuleikrit sem sýnt verður á Egilsstöðum og Seyðisfirði um helgina.
„Kjarninn í hópnum urðu 25 konur. Við hittumst alls átta sinnum, í fyrsta sinn í febrúar. Ég hef tekið þátt í að skipuleggja alþjóðlega matarviðburði hér og fólkið sem ég kynntist þannig myndaði grunninn að hópnum. Margaret Johnson frá WOMEN Iceland hjálpaði líka. Orðið barst síðan víða og eftir okkar þriðja fund bættust stöðugt fleiri við.
Fundirnir urðu oft langir því þeir sköpuðu öryggi fyrir konurnar til að segja sögur sínar. Við vorum þó alltaf með útgangspunkt, til dæmis hluti að heiman. Sumir þeirra hafa ratað inn í sýninguna,“ segir Tess.
Hún er sjálf fædd í Paragvæ en hefur búið á Seyðisfirði undanfarin ár og hefur getið sér góðs orðs í íslenskri leiklist fyrir brúðustjórn. Hún nýtir þá hæfileika í sýningunni en brúðurnar gerir Greta Clough sem býr á Hvammstanga og rekur þar brúðustúdíóið Handbendi. Greta er jafnframt leikstjóri.
Þjóðsagan um konuna og selshaminn
Söguna spinnur Tess út frá norrænum þjóðsögum um konur í selsham. Íslenska sagan er þekktust fyrir línuna „ég á sjö börn í sjó“ en allar eiga þær sameiginlegt að segja frá selum sem ganga á land, kasta þar hamnum og reynast vera konur. Sé hamnum stolið kemst konan ekki aftur í sjóinn. Þær aðlagast oft lífinu í landi en sakna ávallt fjölskyldunnar í hafinu. Sögurnar finnast í flestöllum landshlutum í mismunandi útgáfum, þar á meðal frá Austfjörðum.
„Ég nota söguna sem líkingu við að vera innflytjandi og vef inn í hana sögur austfirsku kvennanna. Ég segi söguna með brúðunum en líka með hljóðbrotum og textainnsetningu frá konunum um þeirra ferli.“
Leið fyrir aðfluttar konur til að ræða líðan sína
Konurnar í hópnum koma svo að segja frá öllu Austurlandi og eru af 19 ólíkum þjóðernum. „Í mínum huga er eitt það kraftmesta við þennan hóp að við höfum getað sagt sögur okkar og hlustað á hvað hinar hafa að segja. Þannig sjáum við hversu líkar við erum.
Flestar okkar starfa í einhvers konar umönnunarstörfum, hvort sem það er við ræstingar, leiðsögn eða þjónustu en við þurfum líka að hugsa um sjálfar okkur. Það hefur gengið vel en það kom fram í gegnum hópinn að það voru fleiri en ég sem höfðu þörf fyrir svona samveru.
Ég er lærður félagssálfræðingur og fór af stað með hugmynd um að við gætum rætt um andlega heilsu okkar, um líðan aðfluttra kvenna í dreifbýli. Það gekk betur eftir því sem traustið í hópnum jókst. Þessi blanda af mýkt og hörku kemur fram í sögunni.“
Heiðra og taka þátt í kvennafrídeginum
Sýnt verður í Sláturhúsinu klukkan 19:30 á morgun og aftur í Herðubreið á Seyðisfirði á sama tíma á laugardag. Frumsýninguna ber upp á sama dag og 50 ára afmæli kvennafrídagsins. „Þetta er okkar leið til að heiðra þessa sögufrægu kvennahreyfingu en líka til að taka þátt með því að koma á framfæri röddum aðfluttra kvenna.“