Skip to main content
Kvennahljómsveitin Dúkkulísurnar. Mynd úr safni.

Rýna í Pamelu í Dallas og fleiri lagatexta kvenna

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 17. okt 2025 14:33Uppfært 17. okt 2025 14:34

„Ég vild‘ég væri Pamela í Dallas“ er yfirskrift viðburðar á Bókasafni Héraðsbúa á Egilsstöðum á sunnudag. Þrjár tónlistarkonur af mismunandi kynslóðum munu þar rýna í lagatexta sína og samtíma.

„Við ætlum að fara yfir söguna á þessum þremur tímabilum út frá tónlist kvenna og hvernig textarnir hafa breyst,“ segir Kolbrún Erla Pétursdóttir, sem veitir bókasafninu forstöðu.

Konurnar þrjár eru Gréta Sigurjónsdóttir úr Dúkkulísunum, sem áttu sína gullöld um miðjan níunda áratuginn en starfa enn reglulega, Halla Kristjánsdóttir úr stúlknasveitinni Without the Ball sem starfaði um miðjan fyrsta áratug þessarar aldar og Ína Berglind Guðmundsdóttir, nemi í Menntaskólanum á Egilsstöðum og tónlistarkona.

Pamela lifir enn góðu lífi

Viðburðurinn er styrktur af Bókasafnssjóði sem hluti af verkefni um læsi á stöðu og baráttu kvenna í tilefni af kvennaári Sameinuðu þjóðanna. Almenningsbókasöfnin deila styrknum en fjalla um málefnið hvert með sínum hætti. Á Héraði hafði Kolbrún Erla samband við Grétu sem tók verkefnið að sér. 

Konurnar þrjár munu lesa upp texta sveita sinna, rýna þá út frá þeim tíma sem þeir voru samdir á og hvernig það er að koma sér áfram í tónlist.

Viðburðurinn hefst klukkan 15:00 á sunnudag og dregur nafn sitt af línu í lagi Dúkkulísanna, Pamelu. Þar er vísað í sjónvarpsþáttinn Dallas, sem var vinsæll þá. Vísunin lifir þó enn góðu lífi. „Gréta kom með titilinn og mér fannst tillagan góð. Einhvern veginn eru þættirnir enn þekktir,“ segir Kolbrún.

Aðrir viðburðir helgarinnar

Ný sýning opnar í dag í Skaftfelli á Seyðisfirði og stendur í tvær vikur. Þar eiga verk listamennirnir Kristina Stallvik frá Noregi, Lin Ti frá Finnlandi og Yvetta Bathgate og Jake Shepherd frá Bretlandi sem öll hafa sýnt víða um heim.

Á Reyðarfirði verður Litla listahátíðin haldin öðru sinni og á Tehúsinu verður Axel Flóvent með tónleika á morgun. Ástralski hljóðlistamaðurinn og uppfinningamaðurinn Nick Wishart kemur fram í gömlu kirkjunni á Stöðvarfirði á sunnudag.