Skip to main content
Frá Litlu listahátíðinni á Reyðarfirði í fyrra. Mynd: Aðsend

Litla listahátíðin á Reyðarfirði hefur stækkað mikið milli ára

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. okt 2025 14:26Uppfært 17. okt 2025 09:34

Litla listahátíðin á Reyðarfirði verður haldin öðru sinni á laugardag. Hátíðin hefur vaxið töluvert milli ára. Skipuleggjendur segja ánægjulegt að geta leitt saman listafólk og bæjarbúa á Reyðarfirði.

„Hátíðin hefur vaxið nokkuð á þessu fyrsta ári og stækkað hratt með fleiri viðburðum,“ segir Esther Ösp Gunnarsdóttir, einn skipuleggjenda hátíðarinnar sem hleypt var af stokkunum í fyrra.

Dagskráin á laugardag verður haldin í bragga á svæði Stríðsárasafnsins og hefst með listasmiðju fyrir börn frá klukkan 10-13 og tónleikum á hádegi. Söng- og listakonan Karitas Harpa Davíðsdóttir er þar í aðalhlutverki. 

Frá klukkan 15-17 verður listasýning og markaður. Esther verður meðal listafólksins þar en hún vinnur úr leir. Af öðrum má nefna málarann Aron Leví Beck, Paulinu Bak sem gerir gifsverk og Laurian Furtuna sem er myndlistarmaður.

Tækifæri til að tengja listafólk

Paulina og Laurian eru fædd erlendis en hafa búið á Reyðarfirði í nokkur ár. „Við höfum verið meðvituð um að bjóða með okkur fólki af erlendum uppruna sem er ekki jafnt tengt inn í samfélagið.“

Um kvöldið verða tónleikar, annars vegar með Svavari Knúti, hins vegar með hljómsveit sem heitir Selfoss – þótt hún sé frá Reyðarfirði. Aðgangseyrir tónleikanna rennur allur til Krabbameinsfélags Austfjarða.

Mörg sem voru að vinna hvert í sínu lagi

Eins og dagskráin ber með sér þá er mikil gróska í lista- og menningarlífi á Reyðarfirði um þessar mundir. „Við höfum fullt af fólki hér sem er að gera flotta og sniðuga hluti. Einhverra hluta vegna hefur þó verið eins og þessi hópur sé að vinna hver í sínu horni. Ein kveikjan að hátíðinni var að við vissum af ýmsum sem voru að gera eitt og annað.

Nú veit fólk meira hvert af öðru og margir nýttu tækifærið í fyrra til að koma sér upp samfélagsmiðlasíðum eða öðru til að kynna sig betur.

Á Reyðarfirði hefur ekki verið mikið um svona viðburði en við höfum oft velt fyrir okkur að halda slíka. Í fyrra ákváðum við að það gengi ekki lengur að tala bara um þá heldur yrðum við að gera eitthvað og settum saman hópinn sem stendur að baki þessu.

Við renndum blint í sjóinn með áhuga Reyðfirðinga, en hann kom okkur skemmtilega á óvart. Þess vegna höldum við áfram.“