Skip to main content
Jón Hilmar hefur tónleikaferð sína á Fáskrúðsfirði á morgun. Mynd: N4

Jón Hilmar leggur af stað í tónleikaferð um Austfirði með nýjan gítar og bílinn á nagladekkjum

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 21. okt 2025 16:49Uppfært 21. okt 2025 16:53

Tónlistarmaðurinn Jón Hilmar Kárason í Neskaupstað hefur á morgun tónleikaferð um Austfirði sem hann kallar „Tíu tónleika.“ Hann kemur við í flestum byggðarlögum Austurlands með kassagítarinn en fær líka til sín gesti.

„Þótt tónleikaröðin heiti „Tíu tónleikar“ þá taka glöggir lesendur kannski eftir að þeir eru bara níu, því okkur tókst ekki að finna dagsetningu á Djúpavogi í þessari atrennu,“ segir Jón Hilmar.

Hann byrjar tónleikaröðin á Fáskrúðsfirði annað kvöld en mun spila á Egilsstöðum, Reyðarfirði, Norðfirði, Stöðvarfirði, Eskifirði, Seyðisfirði, Breiðdalsvík og Vopnafirði fram til sunnudagsins 2. nóvember. Aðeins þrír dagar eru ætlaðir í frí á þessum tíma.

Óvanur að vera aleinn með kassagítarinn

Jón Hilmar ætlar að spila bæði ný lög eftir sjálfan sig en líka útsetningar af þekktum lögum. Tónlistina flytur hann einn með kassagítarinn. 

„Ég hef í dálítinn tíma haft bakvið eyrað að fara af stað með kassagítarinn, sem er smá áskorun, því ég er yfirleitt með söngvara eða aðra hljóðfæraleikara með mér þar sem ég kem fram. Nú þurfa laglínan, tromman og bassinn öll að vera í kassagítarnum.“

Jón Hilmar mun einnig syngja nokkur laga sinna, eitthvað sem hann er ekki þekktur fyrir. „Ég geri það ekki oft en það er þó algengara en að ég sé svona aleinn með gítarinn.“

Nýr gítar frá Nashville

Í seinni hluta tónleikanna fær Jón Hilmar til sín gesti, svo sem trommuleikaranna Birgi Baldursson, tónlistarkonuna ungu Ínu Berglindi Guðmundsdóttur og reynsluboltann Garðar Harðar. „Mér datt í hug að fá Austfirðinga í lið með mér sem gesti. Þeir koma meira í viðtal þannig þetta verður eiginlega lifandi hlaðvarp. Að megninu til er þetta tónlistarfólk en það koma líka ljóðskáld í heimsókn.“

Jón Hilmar er einnig að senda frá sér nýtt lag sem er væntanlegt á streymisveitur á allra næstu dögum. 

Jón Hilmar segist spenntur fyrir að leggja af stað á morgun. „Ég er með nýjan kassagítar sem ég keypti í Nashville í vor. Ég vildi fara á stað þar sem ég gæti prófað mörg hljóðfæri áður en ég tæki ákvörðun og ég gat það þar. Ég er að pússa hann og skipta um strengi. Síðan setti ég bílinn á nagla í dag, þannig að allt er klárt.“