Anna Hrefnudóttir sýnir á Uppsölum
Listakonan Anna Hrefnudóttir opnar á laugardag málverkasýningu á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði. Anna býr þar í dag en hún greindist með Parkinson-sjúkdóminn fyrir tæpum 30 árum.
Anna er lærð í myndlist, útskrifaðist úr grafíkdeild Mynd- og handíðaskólans árið 1992. Hún hefur undanfarin 20 ár búið á Stöðvarfirði en býr í dag á Uppsölum.
Hún greindist með Parksinson árið 1998. Þrátt fyrir það hefur hún aldrei gefist upp á lífinu og haldið áfram í myndlistinni. Verkin á sýningunni eru flest unnin með akrýl á striga sem hefur verið hennar aðferð.
„Innra líf og baráttu við sjúkdóminn má lesa í sumum verka hennar - en sama hvað þá standa málverkin fyrst og fremst fyrir seiglu og lífsgleði. Að flytja á hjúkrunarheimili þýðir ekki að maður leggi upp laupana og hætti að stunda það sem gefur lífi manns gildi,“ segir í tilkynningu.
Sýningin verður uppi um óákveðinn tíma og er opin gestum og gangandi.