Hugmyndir um friðlýsingu Kjarvalshvamms á veg komnar
Að einn allra merkasti og þekktasti myndlistarmaður þjóðarinnar, Jóhannes S. Kjarval, hafi löngum búið um sig í litlum kofa í litlum hvammi í Hjaltastaðaþinghá og þar málað mörg sín fallegustu verk er sannarlega þess virði að gera mikið úr. Minjastofnun Íslands skoðar nú hvort veita eigi griðastað hans Kjarvalshvamminum formlega friðlýsingu.
Friðlýsingarhugmyndin var fyrst viðruð af hálfu Minjastofnunar Íslands í haust að sögn Þuríðar Elísu Harðardóttur, minjavarðar Austurlands. Fyrsta skrefið í slíku ferli er að ræða við hagsmunaaðila sem í þessu tilfelli eru landeigendur sjálfir, sveitarfélagið Múlaþing sem á húsakostinn í hvamminum auk Minjasafn Austurlands sem lengi hefur haft umsjón með staðnum. Það skammt á veg komið en áfram skal unnið í málinu að hennar sögn.
Formleg friðlýsing er mesta mögulega verndun menningarminja í landinu og slík getur náð til húsa, mannvirkja og nánasta umhverfis þess friðlýsta. Friðlýstum menningarminjum má enginn raska, spilla, flytja úr stað eða rífa nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Tímasetningin fyrir hugsanlega friðlýsingu hvammsins og húsakostsins á staðnum heppileg með tilliti til þess að allra nauðsynlegustu endurbótum á húsakosti listamannsins; sumarhúsi og bátaskýli lauk í sumar sem leið. Þá hefur auk þess allt aðgengi að hvamminum tekið breytingum til hins betra með lagningu góðs bílastæðis og endurnýjun allra upplýsingaskilta.