Skip to main content
Safnahúsið í Neskaupstað þar sem Náttúrustofan býður í þrjátíu ára afmælisveislu sína síðdegis í dag. Þangað allir velkomnir. Mynd Áslaug Lárusdóttir

Mörgum forvitnilegum spurningum svarað í afmælisveislu Náttúrustofu Austurlands

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. okt 2025 13:42Uppfært 27. okt 2025 13:44

Ætli lúpína sé lífshættuleg? Hvers vegna skyldu mýsnar í Egilsstaðaskógi vera með naglalakk og hvernig stendur á því að líffræðingar kunna hugsanlega ekki að telja?

Æði forvitnilegar spurningar hér að ofan en þessar þrjár auk fjölda annarra eru meðal þess sem starfsfólk Náttúrustofu Austurlands ætlar að svara síðdegis í dag þegar stofan fagnar 30 ára afmæli sínu í Safnahúsinu í Neskaupstað. Þar verða kósíheitin í fyrirrúmi og ýmislegt forvitnilegt á seyði hvort sem er fyrir smáfólkið eða þá sem eldri eru.

Áfanginn sannarlega stór enda var Náttúrustofa Austurlands sú allra fyrsta sem sett var á stofn í landinu. Þáverandi forsprakkar sveitarfélagsins Neskaupstaðar áttu frumkvæði að því árið 1995 en í dag er stofan rekin í samvinnu Fjarðabyggðar og Múlaþings með stuðningi ríkisins.

Af þessu tilefni opnar stofan dyr sínar milli klukkan 17 og 19 í dag og þangað allir velkomnir að þiggja veitingar og fræðast um eitt og annað það er stofnunin gerir og sinnir dags daglega en allt verður það með kósí yfirbragði og kertaljósum í þokkabót. Mun bæjarstjóri Fjarðabyggðar, Jóna Árný Þórðardóttir, ávarpa gesti en í kjölfarið halda starfsmenn fróðleg stutt erindi auk þess sem áhersla verður á skemmtilegar uppákomur fyrir þá sem yngri eru að sögn forstöðumannsins Kristínar Ágústsdóttur.

„Svörin við þessum forvitnilegu spurningum er eitthvað sem mun koma fram í erindum okkar í dag. Við ákváðum að í staðinn fyrir að vera með svona hefðbunda dagskrá að reyna í staðinn að svara forvitnilegum spurningum sem upp hafa komið. Við starfsfólkið ætlum að skipta með okkur verkum. Sumir með stutt erindi á neðri hæðinni meðan aðrir verða á eftir hæð með fræðslu, sögur, föndur og viðburði sem eru aðeins meira miðaðir að börnum og þeim sem yngri eru meðan erindin eiga kannski meira erindi við þá sem eldri eru. En áherslan hjá okkur er að hér verði kósí og notalega fari um þá gesti sem áhuga hafa á að mæta og fræðast.“