Skip to main content
Dr. Emma Cross. Mynd: GG

Mikilvægt að skilja stöðuna í sjónum í firðinum áður en fiskeldi hefst

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 20. okt 2025 18:21Uppfært 20. okt 2025 18:22

Bandarískir vísindamenn hafa í samstarfi við Skálanessetur staðið fyrir rannsóknum með nýrri tækni á gæðum sjávar í Seyðisfirði. Stjórnandi rannsóknarinnar segir lykilatriði að hafa slíkar upplýsingar til að miða við ef fiskeldi fer af stað í firðinum til að geta mælt þær breytingar sem eldið hefur í för með sér.

Dr. Emma Cross er aðstoðarprófessor í haf- og strandsvæðavísindum við Háskólann í Southern Connecticut (SCSU) í Bandaríkjunum og veitir þar forstöðu rannsóknastofnun í faginu. Skólinn hefur átt í samstarfi við Skálanes frá árinu 2010 með að senda hingað reglulega nemendahópa. Emma var meðal þeirra sem kynntu rannsóknir sínar á fyrirlestri á Seyðisfirði í sumar.

Góð blöndun sjávar í firðinum

Meginniðurstöðurnar til þessa eru að í lífríkinu í Seyðisfirði séu árstíðasveiflur, mun fleiri tegundir séu í sýnum teknum í júlí heldur en í september. Ekki hefur verið munur eftir sýnatökustöðum. Almennt virðist lífríkið þar dæmigert fyrir strandsvæði. Krabbaflær eru algengasta lífveran, lítil krabbadýr sem lifa í vatni eða önnur svifdýr og lirfur sem stærri lífverur nærast á.

Sýnatökusvæðin eru öll fjarri flaki breska olíutankskipsins El Grillo svo áhrifa þess gætir ekki. Um vatnsgæðin segir Emma annars að áhugaverðast sé að þau séu tiltölulega þau sömu á mismunandi dýpi. 

Tekin hafa verið sýni uppi við yfirborðið, á um tveggja metra dýpi, síðan á sjö metra dýpi og loks 20 metra dýpi en fiskeldiskvíar eru gjarnan á 15-20 metra dýpi. „Sjórinn er mjög svipaður þótt farið sé dýpra. Hitastigið er nánast hið sama. Jafnvel þótt sólin hiti yfirborðið þá er lítill munur á hitanum þar og á 20 metra dýpi. Þetta segir okkur að blöndun sjávar í Seyðisfirði er mjög góð.

Við sjáum líka að fjörðurinn er mjög saltur. Það er vegna þess að fjarðarmynnið er mjög breitt þannig að úthafið er ráðandi á firðinum. Jafnvel þótt í hann falli ferskvatnsár þá hafa þær lítil áhrif.

Við vitum líka að það eru sterkir straumar í firðinum, meðal annars því fyrsta árið okkar höfðum við engar festingar á myndavélunum okkar. Þannig ef við fórum frá þeim í klukkustund höfðu þær rekið töluvert þegar við komum aftur,“ segir Emma.

Mikilvægt að skilja hvað áhrif fiskeldið getur haft

Aðspurð svarar Emma að fiskeldi gæti haft margvísleg áhrif á lífríkið í firðinum. „Í fyrsta lagi mun það að setja mannvirki með hörðu yfirborði ofan í fjörðinn leiðir til þess að ákveðnar tegundir nýta það sem nýtt búsetursvæði. 

Það er hægt að halda því fram að það geti verið jákvætt og leitt til meiri fjölbreytni en ég vil þó setja þann fyrirvara að þetta geta verið aðgangsharðar tegundir sem ekki búa hér að staðaldri og þar með hrakið tegundirnar sem fyrir eru á brott. Það þarf því að vita hvaða tegundir þetta eru og hvernig þær hegða sér.

Í öðru lagi verður í kvíunum mikill lífmassi á litlu svæði sem getur haft neikvæð áhrif á lífríkið í kring. Í þriðja lagi geta strokufiskar haft neikvæð áhrif. Eldisfiskarnir eru vanalega erfðabreyttir og vanalega viljum við ekki að þeir blandist saman við villtan fisk. 

Í fjórða lagi geta kvíarnar laðað að sér sjávarlús, sem er sníkjudýr sem festir sig á fiskinn. Ef slíkur fiskur sleppur getur hann borið lúsina í villta fiskinn. 

Að auki þá er fiskurinn fóðraður. Þótt fiskeldi hafi ýmsar leiðir til að gefa fiskinum, þá verða þær aldrei fullkomnar, þannig að allt ætið lendi akkúrat þar sem það verður étið. Þannig verða alltaf matarleifar, eða öllu heldur lífrænt efni, eftir í eða við kvíarnar. Á endanum sekkur það til botns og blandast við úrganginn frá fiskunum. Bakteríur brjóta það niður en við það minnkar súrefni í sjónum en koltvíoxíð eykst. Það getur valdið súrefnisskorti sem getur valdið ákveðnum lífverum miklum vandræðum.

Aukið koltvíoxíð getur líka valdið súrnun sjávarins. Þetta bætist við þær loftslagsbreytingar sem eru að verða ofan yfirborðsins.“

Tilgangurinn að hjálpa Seyðfirðingum

Þessi uppsöfnun er þekkt og þess vegna eru í gildi reglur um að hvíla eldissvæði á milli kynslóða. Aðspurð segir Emma mögulegt að hinir sterku straumar í Seyðisfirði geti skolað úrganginum í burtu þannig að hann leysist upp. „Það er mjög góð spurning og eitthvað sem ég hef mikinn áhuga á að mæla.“

Hún segist vonast til að þær rannsóknir sem stundaðar eru í samstarfi háskólanna og Skálanesseturs komi til með að hjálpa Seyðfirðingum. „Við erum þakklát fyrir að geta átt í samtali við heimafólk. Við erum að þessu til að reyna að hjálpa því og tryggja að þeir skilji hvað er að gerast í kringum þá. Til þess er nauðsynlegt að hafa góð gögn sem aftur nýtast til að móta reglur eða stjórnunaráætlanir.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum.