Skip to main content
Frá æfingu á Óvitum í vikunni. Mynd: GG

Mikill áhugi meðal barna og ungmenna að taka þátt í Óvitum

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 10. okt 2025 14:16Uppfært 10. okt 2025 14:17

Leikfélag Fljótsdalshéraðs frumsýnir um helgina leikverkið Óvitar eftir Guðrúnu Helgadóttur. Þetta er fyrsta uppfærsla leikfélagsins í þrjú ár. Endurskoða þurfti áformin þegar mikill áhugi reyndist meðal barna og ungmenna að taka þátt í leiksýningunni.

„Þetta var hugmynd að barnaleikriti, tiltölulega einföldu þar til við ákváðum að hafa rúmlega 20 börn með, en þau voru svo mörg sem langaði að vera með. Það komu svo margir á fyrsta samlesturinn og þess vegna ákváðum við að hafa þetta þannig. Það er greinilega kominn leikhúsþorsti í fólk,“ segir Sigríður Lára Sigurjónsdóttir leikstjóri.

Barna- og ungmennastarfið mikilvægt fyrir LF

Höfundurinn, Guðrún Helgadóttir, lést árið 2022 og fannst stjórn leikfélagsins viðeigandi að heiðra minningu hennar. Sigríður Lára segir að þess utan sé verkið skemmtilegt og með góðan boðskap, ádeilu um að foreldrar vinni of mikið á kostnað þess að sinna fjölskyldunni og börnunum. Verkið er líka greinilega vinsælt því Leikfélag Sauðárkróks frumsýnir það líka í kvöld.

Sigríður Lára segir að starf með börnum og ungmennum sé Leikfélagi Fljótsdalshéraðs mikilvægt. Rifja má upp eftirminnilegar sýningar í gegnum tíðina sem jafnvel hafa orðið til þess að kveikja áhuga sem síðan hefur endað með leiklistarferli.

„Síðasta leikritið með svona mörgum börnum var árið 2013 þegar við settum upp Kardimommubæinn. Við viljum halda í þetta uppeldi með barna- og unglingastarfinu. Þannig hefur það alltaf verið, þannig byrjaði ég í þessu leikfélagi.“

Verið 35 ár í leikfélaginu

Sigríður Lára hefur komið við í flestum hlutverkum hjá leikfélaginu, meðal annars verið formaður þess. Þetta er í annað skiptið sem hún leikstýrir verki, setti áður upp jólasýningu árið 2018. Hún hóf hins vegar leikferilinn árið 1990 í verki sem samið var fyrir félagið og hét „Þar er líka líf.“

Hún kann vel við sig í leikstjórastólnum. „Þetta er búið að vera rosalega skemmtilegt Það eru margir sem aldrei hafa verið í alvöru leikhúsinu. Fyrsta skiptið er alltaf skemmtilegt. Allir muna eftir fyrsta leikritinu sem þeir taka þátt í. Þess vegna hefur þetta verið skemmtilegt og krakkarnir standa sig rosalega vel.“

Aukinn kraftur í kringum stórafmæli

Með Óvitum vaknar Leikfélag Fljótsdalshéraðs úr ákveðnum dvala. Síðasta verkið sem það setti upp undir eigin merkjum var Gulleyjan árið 2022 en ýmsir úr félaginu tóku þátt í sýningunni Hollvættur á heiði sem Sláturhúsið hélt utan um árið 2023. 

Leikfélagið fagnar 60 ára afmæli sínu á næsta ári og gerir það með ýmsum hætti. Það hefur staðið fyrir opnum leiklestrum og undirbýr fleiri. „Við ætlum að vera sýnileg og láta á okkur bera.“

Leikverkið verður frumsýnt í Sláturhúsinu á morgun klukkan 17. Sýnt verður alla daga, nema þriðjudag og fimmtudag, fram til sunnudagsins 19. október en þá lýkur sýningum alveg.